„Ég sat þarna með fugl í sitthvorri hendinni“
„Ég sat þarna með fugl í sitthvorri hendinni“...

Myndlistarkonan Elín Elísabet Einarsdóttir hefur myndskreytt fjölda bóka fyrir börn og fullorðna, meðal annars bók um nýyrði Jónasar Hallgrímssonar, Á sporbaug, sem kom út fyrir fáeinum árum.Elín var gestur Kristjáns Freys Halldórssonar í Fram og til baka á Rás 2 og var með flögrandi skemmtilega fimmu þar sem hún nefndi fimm fugla sem á vegi hennar hafa orðið.Varði allri barnæskunni úti í fjöruÞessa dagana er Elín að ljúka myndlistarnámi frá Listaháskóla Íslands sem hún hóf í miðjum faraldri. „Eins og margir voru að gera, þegar allir voru að endurskoða líf sitt. Þá vantaði mig að komast út úr stofunni minni þar sem ég var ein að teikna alla daga og vera inni í skapandi samfélagi.“„Það er búið að vera mjög gefandi tími,“ segir hún. Bráðlega fari hún svo austur á Borgarfjörð þar sem hún hefur varið miklum tíma síðustu tólf ár og ætlar að halda málverkasýningu þar sem opnar 13. júlí.Elín hefur alltaf verið mikil áhugamanneskja um fugla. Æskuheimili hennar í Borgarnesi stendur við klettasnös og er vík fyrir neðan húsið. „Mér finnst eins og ég hafi varið allri barnæsku minni úti í glugga eða ofan í fjöru,“ segir Elín sem sat með kíki í glugganum og fylgdist með fuglalífinu með vísinn á lofti.„Þetta er stór partur af hversdeginum mínum, fuglar. Ég er alltaf með augun opin fyrir þeim,“ segir Elín og þess vegna er hennar fyrsti fugl, auðnutittlingur, fulltrúi hversdagsleikans. Hún segist elska þegar vinir hennar hringja með fyrirspurnir um fugla, lýsa útliti þeirra og leita hjá henni ráða um hvaða tegund þetta gæti verið. „Uppáhaldssímtölin mín eru þessi símtöl.“Tragískasta og tignarlegasta sjóninHennar næsti fugl er súla, ein ákveðin súla til að vera nákvæm. Fyrir tveimur eða þremur sumrum var hún á Borgarfirði eystri ásamt Rán Flygenring stórvinkonu sinni og eiginmanni hennar, Sebastian Ziegler, að vinna verkefni. „Við vorum að keyra í Njarðvík þegar við sjáum súlu bara í vegkantinum, sem er óvenjulegur staður fyrir súlu.“Þau keyrðu út í kant og skrúfuðu niður rúðuna. Súlan brást ekki við sem þeim þótti einnig heldur furðulegt því þau voru verulega nálægt henni. Elín hringdi í Halldór Walter Stefánsson fuglafræðing hjá Náttúrustofu Íslands og lét hann vita. Hann bað hana að huga aftur að súlunni daginn eftir. „Við gerum það, þá er hún ekki á sama stað.“ Þau hafi leitað hennar og fundu í nýslegnu túni umkringda heyrúllum.„Svo liggur hún bara dauð í nýslegnu grasinu. Með höfuðið rykkt aftur og vængina hálfútbreidda. Þetta er einhver tragískasta og tignarlegasta sjón sem ég hef séð,“ segir Elín. Í ljós kom að súlan hafði drepist úr fuglaflensu.Sjónin hafði mikil áhrif á þær Rán og hugsuðu þær stöðugt til hennar. „Ég endaði með því að gera listaverkaseríu um hana. Ég reyndi að mála hana en ég gat ekki málað hana,“ segir Elín. Hún náði að gera útlínur hennar en þegar hún reyndi að gera smáatriðin stóð eitthvað í vegi fyrir því. „Þetta var eitthvað ósnertanlegt,“ segir Elín sem ber húðflúr af súlunni í dag.„Maður hugsar um fugla sem táknmyndir frelsis og hins villta og náttúrunnar. Þetta er það næsta sem maður kemst því að vera partur af náttúrunni finnst mér, að fylgjast með fuglum. Þannig að þetta fór að verða rosalega stórt og táknrænt fyrir mér.“Spilaði undir fyrir 17 ára senegalskan rapparaEin fuglasagan á sér langan aðdraganda en sá er að árið 2017 fékk Elín listamannsdvöl í litlu þorpi í Tambacounda héraði í Senegal, sem rekið er í samstarfi við Josef & Anni Albers Foundation. Þar dvaldi hún í mánuð sem hún segir hafa verið mjög mótandi fyrir sig.„Ég var 24 ára, bara ein í Senegal að teikna,“ segir Elín sem var í engu síma- eða netsambandi. Hún fékk að láni gítar sem á vantaði einn streng svo hún gæti spilað sér til ánægju. Á íbúð hennar var ekkert gler í gluggunum og því heyrðist út þegar hún spilaði og söng.„Einn daginn er bankað upp á hjá mér. Það er einhver gæi sem ég hef aldrei séð,“ sá sagðist heita Alfa en kallaði sig Lil Mar, tæplega átján ára rappari sem hafði frétt af því að hún spilaði á gítar. Hann langaði gjarnan að fá undirspilara og tók fram símann. „Hann byrjar að spila einhver beats á símanum sínum og byrjar að freestyle-a yfir það. Segir mér að gera bara eitthvað.“Þau áttu samskipti á brotinni menntaskóla frönsku Elínar í bland við puular sem var talað á svæðinu. „Ég skil ekki helminginn af því sem hann segir og hann skilur ekki helminginn af því sem ég segi.“Þarna spiluðu þau saman um tíma þar sem Elín lék nokkra hljóma á fimm strengjum. Honum þótti samspilið æðislegt og bað hana að koma með sér í þorpið sitt sem var í hálftíma hjólaferð í burtu og spila fyrir fólkið hans. „Ég hugsa mig aðeins um því klukkan er orðin fjögur og það er frekar stutt í það verði dimmt,“ segir Elín. Hún ákvað þó að þetta væri tækifæri sem hún gæti ekki hafnað og sló því til.Þau hjóluðu yfir í þorpið hans, með gítarinn í bakpoka drengsins. Síðan spiluðu þau úti um allt; heima hjá frænda hans fyrir fjölskyldu hans, hjá annarri frænku, á torgi og enduðu svo á verönd fyrir utan litla verslun þar sem eigandinn gaf þeim lófafylli af hálsbrjóstsykri að launum.Lögin sem drengurinn söng voru á frönsku og puular en viðlögin voru sum á ensku. Þá söng hann: „I love you mother. I love you father,“ og um ást til fjölskyldunnar. „Hann var algjör dúlla sko.“Sat með fugl í sitthvorri hendiAð öllu tónleikahaldi loknu var orðið dimmt. Þá var Elínu hætt að lítast á blikuna og sagði drengnum að hann þyrfti að fylgja sér heim, hún væri orðin svolítið stressuð. Hann setti hjól hennar og gítarinn á mótorhjólið sitt og skutlaði henni heim.Nokkrum dögum síðar kom hann aftur í heimsókn til Elínar, þá með nokkra vini með í för. Allir voru þeir rapparar og vildu fá undirspil. „Ég er ekki góð á gítar, ég er bara með vinnukonugrip sem mamma kenndi mér. Allt í einu er ég sitjandi í hring með fullt af senegölskum gaurum sem allir eru