Framkvæmdastjóri NATÓ fagnar auknum framlögum til varnarmála
Framkvæmdastjóri NATÓ fagnar auknum framlögum til varnarmála...

Framkvæmdastjóri NATÓ kveðst fagna auknum framlögum aðildarríkjanna til varnarmála og varar Kínverja við afleiðingum af hernaðarstuðningi við Rússa.Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATÓ varar Kínverja við því að áframhaldandi stuðningur við Rússa geti haft afleiðingar. Hann fagnaði auknum framlögum bandalagsríkjanna til varnarmála á fundi með Joe Biden Bandaríkjaforseta.Nú verja 23 af 32 aðildarríkjum minnst tveimur prósentum vergrar þjóðarframleiðslu til varnarmála, sem er fjölgun um þrjú frá seinustu skýrslu. Samtals hækka ríkin þau útgjöld um átján af hundraði þetta ár, sem sé það mesta um áratugaskeið.Stoltenberg sagði brýnt að tryggja Úkraínumönnum örugga og stöðuga fjármögnun. Hann sagðist átta sig á þeirri mótsögn að leiðin til friðar fælist í auknum vopnasendingum til Úkraínu.Þau ríki sem veita Úkraínu stuðning hafa unnið ötullega að því að tryggja hann til lengri tíma, aðallega af ótta við það að Donald Trump muni stöðva eða draga úr stuðningi við varnir Úkraínu hljóti hann endurkjör. Hann hefur ítrekað hótað því.Leiðtogar NATÓ-ríkjanna koma saman á hátíðarfundi í næsta mánuði þegar bandalagið fagnar 75 árum. Þá vill Stoltenberg að NATÓ tryggi Úkraínu 40 milljarða evra árlega og taki við skipulagningu aðstoðarinnar af Bandaríkjunum.Stoltenberg sakaði Kínverja jafnframt um að kynda undir mesta ófriðarbál í Evrópu frá lokum seinni heimstyrjaldar með stuðningi við Rússa.Kínversk stjórnvöld hafa sagst hvorugri stríðandi fylkinga veita hernaðaraðstoð, ólíkt Vesturlöndum. Stoltenberg kvað Xi Jinping forseta vilja draga upp þá mynd að Kínverjar sitji á hliðarlínunni, til að styggja ekki Vesturlönd.Raunveruleikinn sé annar og Kínverjar muni þurfa að taka afleiðingunum skipti þeir ekki um stefnu. Ferð Rússlandsforseta til Norður-Kóreu sýni hve háður hann sé stuðningi einráðra þjóðarleiðtoga.