
Glæsimörk tryggðu Tyrkjum sigur í frumraun Georgíu...
Tyrkir unnu 3-1 sigur á Georgíu í bráðskemmtilegum og ævintýralegum fyrri leik dagsins á EM í fótbolta. Þetta var fyrsti leikur Georgíu á stórmóti. Liðin leika í F-riðli ásamt Portúgal og Tékklandi sem mætast klukkan 19.EPA-EFE/CHRISTOPHER NEUNDORFÚrhellisrigningu gerði í Dortmund í dag og hafði hún eflaust áhrif á leikinn sem reyndist fjörugur í meira lagi. Tyrkir byrjuðu betur og Mert Muldur kom þeim yfir á 25. mínútu með stórglæsilegu marki, einu því fallegasta á mótinu til þessa.Rétt rúmri mínútu síðar skoruðu Tyrkir aftur en markaskorarinn Kenan Yildiz reyndist rangstæður og markið stóð ekki. Við það efldust Georgíumenn og Georges Mikautadze jafnaði í 1-1 á 32. mínútu eftir laglegt samspil. Þetta var söguleg stund fyrir Georgíu enda fyrsta mark þjóðarinnar á stórmóti í fótbolta.1-1 stóð í hálfleik en á 65. mínútu skoraði ungstirnið Arda Guler með þrumuskoti af um 25 metra færi upp í fjærhornið og kom Tyrkjum yfir, 2-1. Þetta mark fer líka í keppnina um fallegasta mark mótsins. Georgíumenn sóttu stíft í uppbótartíma og voru nokkrum sinnum hársbreidd frá því að jafna. Markvörður þeirra Giorgi Mamardashvili brá sér í sóknina með þeim afleiðingum að Kerem Akturkoglu skoraði þriðja mark Tyrkja í autt markið þegar Tyrkir unnu boltann eftir hornspyrnu. Dómarinn átti þá aðeins eftir að flauta til leiksloka og Tyrkir fögnuðu 3-1 sigri. …