Grípa til hraunkælingar í fyrsta sinn frá Heimaeyjargosi
Grípa til hraunkælingar í fyrsta sinn frá Heimaeyjargosi...

Hraun vellur yfir varnargarð við Sýlingarfell. Reynt er að hemja hraunið með vinnuvélum. Slökkvilið býst til að sprauta á hraunið og beita kælingu í fyrsta sinn frá því í Vestmannaeyjagosinu.Alma Ómarsdóttir fréttamaður er á svæðinu, innan við varnargarðinn norðvestan við Svartsengi. Hún tekur fram að engin hætta virðist vera á ferðum og að þykkt hraunið bunkist hægt upp við Sýlingarfell. Þar sem fellinu sleppir er hætta á því að hraunið nái yfir garðana.Þegar þau Guðmundur Bergkvist tökumaður mættu á svæðið fyrir rúmum klukkutíma síðan hafi þykk hrauntunga gert sig líklega til að skríða niður varnargarðinn.Vinna við það að hækka varnargarðana á svæðinu hefur staðið yfir í meira en viku.Hraunið hefur aftur á móti tútnað hraðar út en menn áttu von á. Því sé slökkvilið mætt á svæðið til þess að reyna að hemja útbreiðslu hraunsins enn frekar með því að sprauta á það vatni. Ekki hefur verið gripið til slíkrar hraunkælingar síðan í Vestmannaeyjagosinu árið 1973.Nú þegar eru tveir slökkviliðsbílar frá ISAVIA komnir á svæðið auk eins bíls frá slökkviliðinu í Grindavík. Ekki liggur ljóst fyrir hvort slökkviliðsbílarnir verði fleiri. Sækja þarf vatn í vatnsæð í grenndinni.Eldgosið hefur verið nokkuð stöðugt síðustu daga og enn gýs úr einum gíg. Fram kemur á vef Veðurstofu Íslands að hraunflæðið hafi haldist stöðugt í um tíu rúmmetrum á sekúndu frá 3. júní. Þrátt fyrir stöðugan gang í gosinu heldur land áfram að rísa undir Svartsengi.Fréttin verður uppfærð.