ISAVIA taki tillit til dagsferða til læknis við rukkun bílastæðagjalda
ISAVIA taki tillit til dagsferða til læknis við rukkun bílastæðagjalda...

Gjaldtaka á bílastæðum við flugvellina á Egilsstöðum, Akureyri og í Reykjavík hófst ekki í morgun eins og til stóð. Fjármálaráðherra staðfestir þjónustusamning milli innviðaráðuneytis og ISAVIA í dag. Hann beinir tilmælum til stjórnar ISAVIA um ákveðna mildi við gjaldtökuna. Samkvæmt upplýsingum frá ISAVIA innanlandsflugvöllum eru tafir á gjaldtökunni vegna þess að ekki var búið að klára það sem kallað er bakendi í bókhaldinu. En töfin verður ekki löng. Rukkunarvélarnar verða ræstar á morgun eða hinn. Gjaldtakan hefur mætt mikilli andstöðu á Austurlandi. Sveitarstjórnir og íbúar hafa mótmælt og kallað bílastæðagjöldin landsbyggðarskatt sem auki kostnað fólks sem þarf að sækja þjónustu til Reykjavíkur. ISAVIA segir gjaldtöku nauðsynlega til að fjármagna malbikun og viðhald.   Nýr þjónustusamningur staðfestur í dagLögmæti gjaldtökunnar var dregið í efa og ISAVIA gerði nýjan þjónustusamning við ríkið með sérstakri heimild. Samningurinn er á milli ISAVIA innanlandsflugvalla og innviðaráðuneytisins. Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra hefur samþykkt samninginn og Sigurður Ingi Jónhannsson fjármálaráðherra þarf að staðfesta hann líka. Samkvæmt upplýsingum frá aðstoðarmanni Sigurður Inga gerist það síðar í dag. Samhliða því beinir ráðherra tilmælum til stjórnar ISAVIA um gjaldtökuna. Hún verði þannig að þeir sem þurfa til læknis með flugi og koma heim samdægurs þurfi ekki að greiða gjaldið. ISAVIA hafði stillt gjaldskránni þannig upp að fyrstu fimm klukkustundirnar yrðu gjaldfrjálsar. Ætli ISAVIA að verða við tilmælum ráðherra þyrfti mögulega að lengja þann tíma. Málið er hins vegar alfarið í höndum stjórnar ISAVIA enda er aðeins um tilmæli að ræða.