Miðflokkurinn leggur fram vantraust á matvælaráðherra
Miðflokkurinn leggur fram vantraust á matvælaráðherra...

Þingflokkur Miðflokksins leggur fram vantrauststillögu á Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra fyrir upphaf þingfundar í dag. Þetta staðfestir Bergþór Ólafsson þingflokksformaður Miðflokksins. Í síðustu viku sagði Bergþór matvælaráðherra ekki hafa gætt að málshraðareglum og dregið útgáfu hvalveiðileyfis í fjóran og hálfan mánuð. Þó hafi lögmæti veiðanna verið ljóst frá upphafi, að hans mati. Þingfundur hefst klukkan hálf tvö síðdegis. Leyfi Hvals hf. til hvalveiða rann út um áramótin og lengi var beðið eftir ákvörðun um framhald þeirra. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra tilkynnti á þriðjudag að hvalveiðar yrðu leyfðar á yfirstandandi tímabili og gaf leyfi til veiða á 128 langreyðum. Venjan síðustu ár hefur verið sú að veiðiheimild á langreyðum sé gefin út til fimm ára í senn.