
Ósáttir íbúar hresstu upp á hraðamerkingar í Mosfellsdal...
Vegurinn um Mosfellsdal tengir Vesturlandsveg við Kjós og Þingvelli og er fjölfarinn bæði af fólksbílum og rútum.Samkvæmt umferðartölum síðasta árs fara þrjú þúsund og tvö hundruð bílar þar um að meðaltali á dag á ársgrundvelli. Yfir sumarmánuðina er meðalumferð fjögur þúsund og fimm hundruð bílar á dag framhjá byggðinni í Mosfellsdal.Íbúar í Mosfelldal hafa um árabil kvartað undan aksturslagi, bæði hraðakstri og framúrakstri.Rakel Baldursdóttir er í stjórn íbúasamtaka Mosfellsdals og segir að ástandið hafi lengi verið slæmt en lítið hafi þokast þrátt fyrir ábendingar íbúa og tvö banaslys, árið 2016 og 2018. Í skýrslum Rannsóknarnefndar samgönguslysa kemur fram að hraðakstur hafi orsakað bæði slysin.Eftir seinna banaslysið var framúrakstur bannaður í gegnum dalinn og fyrir nokkrum árum voru kynnt áform um að gera þar tvö hringtorg og auka öryggi gangandi og ríðandi vegfarenda.Rakel segir að þeim áætlunum hafi verið frestað, en íbúar hafi beðið Vegagerðina að endurnýja vegamerkingar, bæði miðlínu og merkingu á veginum sem tiltekur 70 km/klst hámarkshraða.Í maí hafi Vegagerðin málað í miðlínuna en síðan ekki söguna meir. Því hafi nokkrir íbúar gripið til sinna ráða.„Í síðustu viku þá voru nokkrir framtakssamir íbúar sem tóku sig til og máluðu þau fjögur skilti [vegmerkingar] sem eru í dalnum, bæði þegar maður kemur inn í dalinn á Ásum og þegar maður fer út úr dalnum á leiðinni á Þingvelli, og svo tvö inni í dalnum, og máluðu þau í sitthvorum litum.“Uppátækið virðist bera árangurRakel segir að þetta hafi aðallega verið til að vekja athygli, en þó virðist íbúum sem merkingarnar skrautlegu hafi borið nokkurn árangur þar sem hraðinn hafi lækkað. Hún segir íbúa vonast til þess að þetta verði Vegagerðinni hvatning til að bæta úr merkingum.Hún segir gagnrýni íbúa ekki beinast gegn Vegagerðinni sem slíkri, enda hafi stofnunin ekki fjármuni til að sinna öllum þeim verkefnum sem þurfi að ráðast í. Ráðamenn þjóðarinnar ættu að setja meiri peninga í samgöngur. …