Óvissa um næstu leiki hjá nefbrotnum Mbappé
Óvissa um næstu leiki hjá nefbrotnum Mbappé...

Kylian Mbappé, fyrirliði franska karlalandsliðsins í fótbolta, þurfti að fara nefbrotinn af velli undir lok leiks Frakklands og Austurríkis á Evrópumótinu í Þýskalandi í gærkvöld. Óvíst er með þátttöku hans í næstu leikjum franska liðsins.Frakkar unnu leikinn í gær 1-0 en Mbappé skallaði öxlina á Austurríkismanninum Kevin Danso eftir að hafa reynt að skalla boltann. Talsvert blæddi og honum var að endingu skipt út af.Mbappé fór á sjúkrahús í Dusseldorf í kjölfarið þar sem staðfest var að hann væri nefbrotinn en er nú aftur kominn í búðir franska liðsins. Samkvæmt Philippe Diallo, formanni franska knattspyrnusambandsins, verður brotið meðhöndlað og engin aðgerð er í kortunum.Diallo sagði á blaðamannafundi í dag að of snemmt sé að segja til um hvort að Mbappé geti spilað restina af mótinu og þá hvaða leiki. Didier Deschamps, þjálfari Frakka, tók í sama streng á blaðamannafundi í gær að hann gæti ekkert sagt til um það hvort eða hvenær Mbappé gæti spilað.Adrian Rabiot, liðsfélagi Mbappé í franska liðinu, ræddi hins vegar við ítalska fjölmiðla í dag og þar sagði hann að Mbappé hefði sjálfur sagt félögunum að það væri í lagi með hann og að hann yrði klár í þriðja leik Frakka í riðlinum sem spilaður verður eftir viku.Sjálfur virðist Mbappé einmitt vera nokkuð brattur miðað við aðstæður en hann spurði fylgjendur sína á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, hvort þau væru með hugmyndir að flottum grímum. Það liggur í það minnsta ljóst fyrir að ef og þá þegar Mbappé mætir aftur til leiks mun hann þurfa að spila með grímu til að verja brotið.Mbappé er fyrirliði franska liðsins og þótti líklegur til afreka á mótinu. Þessi 25 ára leikmaður hefur skorað 47 mörk í 80 landsleikjum en á enn eftir að skora mark á Evrópumóti.Næsti leikur Frakka í riðlinum er gegn Hollandi á föstudaginn kemur en liðið mætir Póllandi í þriðja og síðasta leik sínum í riðlakeppninni þriðjudaginn 25. júní. Hvort Mbappé verði mættur til leiks á eftir að koma í ljós.