Reykjavík Fringe farið af stað í sjöunda skipti
Reykjavík Fringe farið af stað í sjöunda skipti...

„Það er alls konar í boði, eitthvað fyrir alla,“ segir Nanna Gunnars, stofnandi listahátíðarinnar Reykjavík Fringe. Hátíðin hófst í gær og stendur út vikuna. Hún lyftir, eins og nafn hennar gefur til kynnar, upp jaðarlistum og um 60 viðburðir eru í miðbæ Reykjavíkur á hátíðinni. Nanna Gunnars ræddi við Morgunútvarpið á Rás 2 um hátíðina.Áhersla á listform á jaðrinum sem eru auðveld í uppsetningu„Hátíðin fer fram í sjöunda skipti og hefur verið frá 2018,“ segir Nanna. Hátíðin á sér erlenda fyrirmynd. Edinburgh Fringe hefur verið haldin síðan 1947 og er stærsta sviðslistahátíð í heimi. „Þetta er hátíð þar sem eru litlar sýningar sem þurfa ekki mikla umgjörð,“ segir Nanna um Reykjavík Fringe. „Það þarf ekki að setja upp í marga klukkutíma og þetta geta verið sýningar sem er verið að prófa áfram eða eitthvað nýtt, mikið á jaðrinum.“„Það er mikið um uppistand, dragsýningar og burlesk í ár,“ segir Nanna. Fringe-hátíðar eru ekki síst þekktar um allan heim sem stökkpallur fyrir uppistandara. „Það er mikið af uppistandi af því það er svo auðvelt að mæta. Það þarf bara einn míkrófón og uppistandarar þurfa ekki æfingar eða upphitun,“ segir hún. „Þeir hafa svolítið tekið yfir í Edinborg sem er frægasta hátíðin.“60 sýningar á einni viku dreift á fimm staðiÁ Reykjavík Fringe kemur fram hópur íslenskra og erlendra listamanna. „Við erum með 50-60 mismunandi sýningar sem eru sýndar 120-150 sinnum í vikunni,“ segir Nanna. „Það eru 60% innlendar sýningar og fólk sem býr hér en svo eru margir sem koma erlendis frá.“„Ari Eldjárn og Hugleikur Dagsson eru kannski þekktustu nöfnin,“ segir Nanna um hátíðina í ár. „Svo eru margir upprennandi og spennandi uppistandarar.“„Við erum á fimm stöðum: Tjarnarbíó, Þjóðleikhúskjallaranum, Mengi, Dubliner og Gauknum, í ár,“ segir Nanna. „Við reynum að vera í miðbænum þannig það sé auðvelt að ganga á milli,“ segir hún. „Miðaverði er haldið í algjöru lágmarki. Ég held að dýrustu miðarnir séu á 4500.“Orðsporið vaxið á milli áraÞað hefur tekið tíma að byggja upp orðspor hátíðarinnar, á Íslandi jafnt sem erlendis. „Ég finn fyrir því að fleiri og fleiri vita af henni á hverju ári,“ segir Nanna. „Það er svo skemmtilegt að það eru svo margir sem koma aftur og aftur.“ Hún segir það bæði eiga við um gesti og listafólk. „Sá sem stýrir hátíðinni núna heitir Andrew Sim og er uppistandari sjálfur og er með hliðarsjálf sem heitir Linda. Hann er skoskur og bjó í Skotlandi til að byrja með en er núna fluttur til Íslands,“ tekur Nanna sem dæmi. „Hann er bara búinn að festast hérna.“Fyrstu fimm árin stýrði Nanna hátíðinni sjálf en Andrew hefur tekið við. „Maður er alltaf að stækka fjölskylduna.“ Hún hefur þó ekki alveg sagt skilið við afskipti af hátíðinni. „Ég er að sjá um að elda ofan í mannskapinn. Það verður mitt starf í ár.“Nanna Gunnars ræddi við Morgunútvarpið á Rás 2. Þáttinn má finna í spilaranum hér að ofan.