Rutte kveðst hæfilega bjartsýnn um stuðning Ungverja
Rutte kveðst hæfilega bjartsýnn um stuðning Ungverja...

Mark Rutte forsætisráðherra Hollands kveðst hæfilega bjartsýnn um að hafa tekist að milda andstöðu Ungverja við að hann taki við framkvæmdastjórastöðu Atlantshafsbandalagsins, NATÓ. Hann gegnir stöðu forsætisráðherra uns ný ríkisstjórn tekur við völdum.Rutte hefur tekist að tryggja sér stuðning lykilríkja bandalagsins og er enn talinn líklegasti arftaki Jens Stoltenberg þegar hann lætur af embætti síðar á árinu. Klaus Iohannis, forseti Rúmeníu, er þó ekki af baki dottinn og Ungverjar eru erfiður ljár í þúfu.Mark Rutte ræddi við forsætisráðherrann Viktor Orban í gær á hliðarlínu óformlegs fundar leiðtoga Evrópusambandsins.Orban hefur sagt að hann láti af mótstöðunni ef Rutte biðst afsökunar á harkalegum ummælum um ríkisstjórn hans og samþykki að Ungverjaland verði utan beins liðsinnis bandalagsins við Úkraínu.Jens Stoltenberg, núverandi framkvæmdastjóri, féllst á þær kröfur fyrir sitt leyti í síðustu viku. Rutte segir Orban ekki hafa krafist afsökunarbeiðni á fundi þeirra og að þeir hafi sammælst um að mikilvægast væri að horfa til framtíðar.Næsta verk segir Rutte verða að rita bréf til Orbans þar sem hann taki saman það sem fór þeim á milli. Voldugustu ríkjum Atlantshafsbandalagsins er mjög í mun að fyrir liggi hver verði framkvæmdastjóra fyrir leiðtogafund í Bandaríkjunum í júlí.