Símon á persónulegu meti í undanrásum á EM
Símon á persónulegu meti í undanrásum á EM...

Þrír Íslendingar syntu í undanrásum á Evrópumeistaramótinu í sundi í 50 metra laug í morgun. Símon Elías Statkevicius bætti sitt persónulega met í 100 metra skriðsundi og kom í bakkann á 51,51 sekúndu. Símon varð í 67. sæti af 85 keppendum og komst ekki í úrslit en hann á enn eftir að keppa í 50 metra skriðsundi á mótinu, það gerir hann á föstudag. Símon stingur sér til sunds í morgun.Sundsamband ÍslandsJóhanna Elín Guðmundsdóttir synti í undanrásum 50 metra flugsundsins. Hún kom í mark á 27,99 sekúndum og varð í 25. sæti af 30 keppendum en hún synti alveg við sinn besta tíma sem er 27,69 sekúndur. Hún syndir í undanrásum 50 metra skriðsundsins á föstudag. Birgitta Ingólfsdóttir er á sínu fyrsta stórmóti og keppti í 100 metra bringusundi. Hún varð fyrir því óhappi að skera sig á fæti í upphitun og synti metrana 100 á 1:15,34 sem er talsvert frá hennar besta. Hún endaði í 32. sæti af 33 keppendum en er einnig skráð í keppni í 50 metra bringusundi á laugardag. Á morgun, miðvikudag, mæta þau Anton Sveinn McKee og Snæfríður Sól Jórunnardóttir til leiks. Anton syndir 200 metra bringusund og Snæfríður 200 metra skriðsund.