109 ár síðan að konur fengu kosningarétt á Íslandi
109 ár síðan að konur fengu kosningarétt á Íslandi...

Í dag eru 109 ár síðan að konur fengu kosningarétt á Íslandi. Kvenréttindadagurinn var haldinn í fyrsta sinn árið 1916, ári eftir að Kristján tíundi konungur undirritaði lög um breytingu á stjórnarskrá.Aðeins konur sem voru 40 ára og eldri fengu kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis fyrst um sinn. Aldurstakmarkið var fellt burt árið 1920 með nýrri stjórnarskrá og þar með fengu konur full pólitísk réttindi við 25 ára aldur.Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, lagði blómsveig fyrir hönd Reykvíkinga að leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur baráttukonu í tilefni dagsins. „En þó að við getum sagt að við séum með lagalegt jafnrétti karla og kvenna, sem Bríet og hennar kollegar börðust fyrir, það sé að mörgu leyti komið, þá er ljóst að staða kynjanna í samfélaginu er enn ójöfn og raunverulegt jafnrétti er ekki enn í höfn,“ sagði Þórdís Lóa.Formaður Kvenréttindafélags Íslands, Tatjana Latinovic, segir tilefni til að fagna því sem náðst hefur í jafnréttisbaráttu en að dagurinn eigi líka að hvetja samfélagið til að halda áfram. Kvenréttindafélagið ásamt Lady Brewery bjóða til gleðistundar á Fjallkonunni í dag til þess að fagna deginum og útgáfu 19. júní, ársrits Kvenréttindafélagsins sem kemur út í 73. skiptið. Að þessu sinni er ritið tileinkað kvennaverkfallinu 24. október 2023.„Næsta ár verður mjög stórt ár. Það verða 40 ár frá kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 50 ár frá fyrsta kvennafrídegi sem var haldinn á Íslandi, 24. október 1975. Þannig að það er margt að fagna og minnast,“ segir Tatjana og vísar í samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum, sem var fullgiltur á Íslandi 18. júní 1985.