Endurnýta slagorð Trumps fyrir Evrópusambandið...

Stjórnvöld í Búdapest litu til forsetatíðar og hugmyndafræði Donalds Trumps í Bandaríkjunum, þegar þau völdu yfirskrift fyrir formennsku Ungverja í ráðherraráði Evrópusambandsins næstu sex mánuði.Áherslur Ungverja fyrir formennskuna voru kynntar í Búdapest í gær, þar á meðal yfirskriftin og táknmynd formennskunar, sem vísar í Rubik-teninginn, sem hannaður var af ungverska arkitektinum og uppfinningamanninum Ernő Rubik. En vísunin í slagorð Trumps vakti hins vegar mesta athygli.„Þetta vísar til þess að formennskan verður virk,“ sagði János Bóka, ráðherra Evrópumála, á blaðamannafundi í Búdapest í gær um slagorðið. „Þetta sýnir væntingarnar til þess að saman gætum við verið sterkari, en líka að við getum haldið okkar séreinkennum þegar við komum saman. Þetta sýnir líka að Evrópa getur orðið áhrifamikill aðili í alþjóðasamfélaginu.“„Make America great again“ – eða „MAGA“ eins og það er oft notað á samfélagsmiðlum, varð að yfirskrift kosningabaráttu Trumps fyrir forsetakosningarnar 2016. Donald Trump og Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands hefur orðið vel til vina á síðustu árum, og íhaldsmenn í Bandaríkjunum líta gjarnan til Ungverjalands og þess stjórnsama lýðræðis sem Orban og Fidez-flokkur hans hafa komið á í landinu á undanförnum árum. Sú þróun hefur leitt til þess að stjórnvöld í Búdapest hafa átt í ítrekuðum útistöðum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem meðal annars hefur gagnrýnt þróun lýðræðisins og stöðu fjölmiðla í Ungverjalandi.Meðal leiðtoga aðildarríkja ESB er Orban sá sem hefur haldið hvað mestum tengslum við stjórnvöld í Rússlandi, í kjölfar allsherjarinnrásar Rússa í Úkraínu vorið 2022, og hefur ítrekað staðið í vegi fyrir eða tafið stuðningsaðgerðir ESB gagnvart Úkraínu.„Við skiptum okkur ekki af kosningum í öðrum ríkjum,“ sagði Viktor Orban fyrr á þessu ári, „en það væri óskandi að Donald Trump kæmist aftur til valda og myndi stilla til friðar hér í Austur Evrópu.“Sex mánaða formennska í ráðherraráðinuAðildarríki Evrópusambandsins skiptast á um að sinna formennsku í ráðherraráði ESB í sex mánuði í senn. Formennskuríkið, ráðherrar þess eða sendifulltrúar stýra fundum vinnuhópa og ráðherra aðildarríkjanna og hefð er fyrir því að viðkomandi ríki beiti sér ekki fyrir sínum eigin hagsmunamálum, heldur sjái til þess að lagafrumvörp og áherslumál Evrópusambandsins fái framgang í ráðinu. Belgar hafa sinnt formennskunni undanfarna sex mánuði og Pólverjar taka við um næstu áramót.