Fjarlægja skírskotanir til menningar og trúar Úígúra...
Stjórnvöld í Kína hafa breytt heitum hundruð þorpa og bæja Úígúra síðustu ár, að sögn Mannréttindavaktarinnar. Skírskotanir til íslamstrúar eða menningar Úígúra hafa verið fjarlægðar af yfir sex hundruð heitum yfir staði og samfélög Úígúra í Kína. Þess í stað bera hundruð þorpa þeirra nú kínversk nöfn og mörg þeirra endurspegla hugmyndafræði kínverska kommúnistaflokksins.Neyddir til að læra kínverskuÚígúrar eru þjóðarbrot sem hefur átt undir högg að sækja í Kína og búa þeir flestir í Xinjiang-héraði í vesturhluta landsins. Þeir hafa búið á svæðinu öldum saman, flestir þeirra eru múslimar og tungumál þeirra er skylt tyrknesku. Xinjiang-hérað hefur tilheyrt Alþýðulýðveldinu Kína frá 1949 og er skilgreint sem eitt sjálfstjórnarhéraða landsins.Úígúrar hafa verið neyddir til þess að láta af trú sinni og tala kínversku í stað eigin tungumáls. Þá hafa fjölmargir verið vistaðir í fangabúðum og jafnvel neyddir til þrælkunarvinnu.Þessar aðgerðir náðu hámarki á árunum 2017 til 2019 og það var á þeim tíma sem flestar breytingar voru gerðar á heitum þorpa og bæja Úígúra.Stjórnvöld í Kína segja nafnabreytingar og aðrar aðgerðir í tengslum við samfélag Úígúra vera mótvægisaðgerðir gegn hryðjuverkum og ofstækisógnum. Stjórnvöld víða um heim og alþjóðasamtök hafa þó sagt aðgerðirnar fela í sér mannréttindabrot og Mannréttindavaktin sakaði Kína árið 2021 um glæpi gegn mannkyni. …