Glæða nýju lífi í Tónabíó
Glæða nýju lífi í Tónabíó...

Vinabæ í Skipholti í Reykjavík þekkja eflaust margir borgarbúar og mögulega þverskurður þjóðarinnar. Þar var spilað Bingó í árafjöld, allt til ársins 2022, en áður var þar kvikmyndahúsið Tónabíó. Nú er aftur komið líf í þetta fornfræga félagsheimili og stendur mikið til með komandi hausti.Valdís Eiríksdóttir og Kristján Freyr Halldórsson ræddu við Sigurð Snorra Pétursson, sem stendur fyrir þessu nýja lífi hússins, í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.Stysta skrúðganga lýðveldisinsRVK Bruggfélag hefur haldið úti rekstri í Skipholti 31 undanfarin sex ár en hefur nú fært sig um set yfir í Tónabíó að Skipholti 31. „Við erum með bruggstofu í kjallara hússins, viðbyggingu Tónabíós og ætlum að selja okkar bjór uppi í anddyrinu þar sem áður var poppkornssalan,“ segir Sigurður Snorri. „Það er opið núna en síðan erum við að opna sjálfan bíósalinn vonandi seinna í sumar eða haust.“Gömlu bruggstofunni var lokað síðasta föstudagskvöld og var andinn færður yfir í þá nýju með lúðrasveit og gleði. Sigurður Snorri telur þá skrúðgöngu þá stystu í sögu lýðveldisins.Munu gera marga góða hlutiSigurður Snorri segist viss um að í þessu húsi eigi þeir félagar eftir að gera marga góða hluti. „Þetta byrjaði sem bíó ‘63 og var starfandi í 25 ár, til ‘88. Það varð síðan Vinabær, bingóhöll, frá ‘90-2022. Í rauninni var starfsemi bingósins lengur heldur en bíósins. En ég er nú kannski af þeirri kynslóð sem man eftir að hafa farið þarna í bíó,“ segir Sigurður Snorri. Þarna sá hann til að mynda James Bond-myndirnar og Rokk í Reykjavík. „Það er búið að vera mikið um góðar myndir þarna.“Stefnan er að halda úti alls konar viðburðarhaldi í Tónabíói, þar á meðal bíósýningar, tónleika og uppistand. Þarna sé lítið svið en það henti því miður ekki vel til leiklistar þar sem ekkert baksvið er að finna. „Það er samt hægt að gera þarna marga skemmtilega hluti og við ætlum kannski bara að setja heilann í bleyti næstu vikurnar og sjá hvað við ætlum að vera með þarna í framtíðinni.“Ekki skortur á hæfileikaríku tónlistarfólkiSegja má að Skipholtið sé ákveðin uppspretta tónlistar þar sem bæði Menntaskólinn í tónlist og Listaháskóli Íslands halda úti starfsemi í sama eða næsta húsi við Tónabæ. „Þannig það verður ekki skortur á hæfileikaríku fólki til að koma fram og vera með skemmtilega tónlist,“ segir Sigurður Snorri.Þau hafi fengið miklar og góðar undirtektir nágranna fyrir þessu nýja lífi í Tónabíói, þar sem fólk þyrstir í góða skemmtun. „Viðtökurnar hafa verið mjög góðar, við opnuðum á þriðjudaginn og það er búið að vera mikið að gera hjá okkur alveg síðan,“ segir Sigurður Snorri. Það er því til mikils að hlakka með komandi hausti þegar öll leyfi verða komin í hús.Rætt var við Sigurð Snorra Pétursson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Viðtalið má finna í spilaranum hér að ofan.