Hafnarsvæði í Tálknafirði lokað vegna ammoníaksleka
Hafnarsvæði í Tálknafirði lokað vegna ammoníaksleka...

Búið er að loka svæðinu í kringum höfnina á Tálknafirði vegna ammoníaksleka frá gömlu frystihúsi og nokkur ammoníakslykt liggur í loftinu. Útkall barst um klukkan þrjú í nótt eftir tilkynningu um að vegfarendur hefðu fundið mikla ammoníakslykt.Davíð Rúnar Gunnarsson, slökkviliðsstjóri í Vesturbyggð, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að hætta sé ekki á ferðum en lyktin sé sterk. Reykur hafi komið upp þegar fyrst byrjaði að leka en hann hafi þynnst fljótt.„Sem betur fer var vindátt hagstæð þannig að reykinn lagði út á sjó í staðinn fyrir yfir þorpið,“ sagði Davíð. Lyktin sjálf ber með sér ákveðinn fælingarmátt miðað við lýsingar Davíðs en hann segir að ekki sé ráðlagt að vera nálægt húsinu að svo stöddu. „Fólk svo sem forðar sér sjálft frá lyktinni áður en hún veldur skaða. Það er óbærilegt að standa fyrir utan húsið vegna lyktar.“Fyrstihúsið er ekki í notkun en Davíð sagði kæli- og frystibúnað innan þess hafa verið í notkun fyrir tvö nærliggjandi fyrirtæki. Nú væri búið að slökkva á öllum tækjum og skrúfa fyrir inndælingu en nokkuð ammóníak hafi þó lekið frá búnaði. Nú sé beðið eftir því að kerfið tæmist og unnið að því með eiturefnaköfurum að finna lekann.Slökkvilið var kallað út frá Tálknafirði, Bíldudal og Patreksfirði.Búið er að afmarka leitina við hluta kerfisins og segist Davíð vonast til þess að lekinn finnist. Hann sagðist þó óviss um hve langan tíma það tæki.