Hreindís lykillinn að framtíð Hreindýragarðsins á Héraði...

Hreindís litla fannst bjargarlaus ásamt öðrum kálfi á Fjarðarheiði í vor. Hún hafði orðið viðskila við hjörðina og fékk athvarf í hreindýragarðinum á Vínlandi í Fellum. Björn lagði mikið á sig til að halda lífi í kálfunum. Annar drapst þrátt fyrir aðstoð frá dýralækni en Hreindís braggast vel. Svaf hjá henni fyrstu 25 næturnar„Ég þurfti að passa hana meira heldur en ungabarn fyrst. Ég þurfti að sofa hérna hjá henni í 25 nætur og gefa henni mjólk á tveggja tíma fresti. Það dugar ekkert bara kúamjólk. Það verður að vera nærri helmingurinn rjómi og gæsaregg. Svona sterk blanda,“ segir Björn Magnússon í Hreindýragarðinum á Vínlandi í Fellum. Hreindýragarðurinn er vinsæll og yngri kynslóðin getur skoðað vel haldin hreindýr sem fá meira að segja hreindýramosa að maula. Í vor voru þrjú ár ári síðan tarfarnir Garpur og Mosi fundust móðurlausir. Segja má að hreindýragarðurinn hafi verið smíðaður í kringum þá. Klukkan fimm á daginn er þeim sleppt í stórt hólf þar sem þeir fá næði til morguns. Þeir skarta tignarlegum hornum og geta orðið skapstyggir á fengitíma og jafnvel fram yfir áramót. Því er gott að eiga loks kvígu og Hreindís gæti verið komin með kálf eftir 2 ár. Dýr fædd hjá mönnum eru sögð vera meðfærilegri.Hafa verið tamin í 6000 ár„Þau verða gæfari. Hin verða aldrei eins gæf. En þessi dýr eru bara afar þægileg í tamningu. Ég hélt að þetta væri eins og að temja hest. En þetta er mikið auðveldara. Þegar ég var búinn að teyma hann í þrjá daga þá teymdist hann eins og góður hestur. Og tók aldrei svoleiðis í tauminn að ég þurfti að nota báðar hendurnar. Enda eru þessi dýr úr stofni í Skandinavíu sem er búinn að vera taminn í 6000 ár. Og öll okkar hreindýr sem komu til Íslands; þau komu tamin,“ segir Björn.