Hundruð pílagríma látnir í hitabylgju í Mekka...

Minnst 550 pílagrímar hafa látist í Mekka við hadsjí, árlega pílagrímsferð múslima, vegna mikillar hitabylgju sem nú gengur yfir. Hitinn við stærstu mosku Mekka náði nærri 52 stigum í byrjun viku. Pílagrímsferð til Mekka er einn af fimm meginstólpum íslamstrúar. Hadsjí hófst 14. júní í ár og lýkur í dag.Diplómatar frá Egyptalandi segja í samtali við fréttastofu AFP að yfir 550 liggi nú í stærsta líkhúsinu í Mekka vegna andláts af völdum hitatengdra veikinda.Yfir 320 þeirra sem létust voru frá Egyptalandi, minnst sextíu frá Jórdaníu og 35 frá Túnis, samkvæmt upplýsingum þarlendra yfirvalda. 144 pílagrímar frá Indónesíu hafa einnig látist en yfirvöld þar tóku ekki fram hve margir þeirra létust vegna hitatengdra veikinda.Utanríkisráðuneyti Egyptalands segist vinna með yfirvöldum í Sádi-Arabíu að því að hrinda af stað leitar- og björgunaraðgerðum til að leita fólks sem er saknað. Ekki liggur þó fyrir hve margra er saknað að svo stöddu. Yfirvöld í Sádi-Arabíu sögðu að fleiri en tvö þúsund pílagrímar hefðu leitað til heilbrigðisstofnana vegna fylgikvilla sem tengjast hitabylgjunni.