Ísraelar íhuga að lýsa yfir stríði á hendur Hezbollah...

Israel Katz utanríkisráðherra Ísraels sagði í gær að brátt væri von á ákvörðun ísraelskra stjórnvalda um hvort til standi að lýsa yfir stríði á hendur Hezbollah-samtökunum í Líbanon. Hezbollah eru hliðholl Hamas í stríðinu á Gaza. Ljóst er að stríðsyfirlýsing myndi fela í sér stigmögnun átaka í Mið-Austurlöndum, nokkuð sem Bandaríkjamenn, helstu bandamenn Ísraels, hafa reynt að koma í veg fyrir.„Alvarleg staða“Bandarísk stjórnvöld hafa nú sent Amos Hochstein sendifulltrúa til Líbanon til þess að reyna að lægja öldurnar. Hochstein sagði blaðamönnum í Beirút í gær að hann færi til Líbanon strax að lokinni stuttri ferð til Ísraels vegna þess að staðan væri alvarleg.Árásir hafa gengið á víxl við landamæri Ísraels og Líbanon síðustu mánuði en allsherjarstríði hefur þó ekki verið lýst yfir. Byggðir í grennd við landamærin hafa verið rýmdar í báðum ríkjum vegna stöðugra árása á báða bóga. Aukinn þungi hefur færst í árásirnar að undanförnu og óx spennan milli Ísraela og Hezbollah til muna í síðustu viku.Krefjast vopnahlés á GazaHáttsettur leiðtogi Hezbollah lést þá í árás Ísraelshers og svöruðu samtökin með eldflaugaárás að Galíleu og Gólan-hæðum. Herinn sagði tvo hermenn hafa særst lítillega. Talsmaður Ísraelsstjórnar sagði í kjölfarið að brugðist yrði við öllum atlögum Hezbollah af fullri hörku. Samtökin hafa sagt að þau láti ekki af árásum sínum fyrr en samið verði um vopnahlé á Gaza.Stjórnendur samtakanna hafa síðan gefið í skyn að þau hyggist ráðast á hafnir í Haifa, þriðju stærstu borg Ísrael. Katz sagði í kjölfarið á samfélagsmiðlinum X að ísraelsk stjórnvöld væru hársbreidd frá því að ákveða hvort breyta ætti reglum leiksins gegn Hezbollah og Líbanon. Í allsherjarstríði yrðu Hezbollah-samtökin upprætt og Líbanon illa leikið. Ísraelski herinn sagði að áætlanir um sókn í Líbanon hefðu þegar verið samþykktar.„Nasrallah [framkvæmdastjóri Hezbollah] stærði sig af því í dag að hafa myndað hafnir Haifa, sem stýrt er af alþjóðlegum fyrirtækjum frá Kína og Indlandi, og hótaði að ráðast á þær. Við nálgumst það augnablik að ákvörðun verði tekin um breyttar reglur gegn Hezbollah og Líbanon. Í allsherjarstríði verður Hezbollah upprætt og Líbanon illa leikið. Ísraelsríki mun gjalda þess á vígstöðvum og heima fyrir en með sterkri og sameinaðri þjóð, og fullum styrk ísraelska hersins, endurheimtum við öryggi íbúa í norðri,“ sagði í færslu Katz í gær.