Pútín og Kim undirrita varnarsamning
Pútín og Kim undirrita varnarsamning...

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Kim Jong Un, leiðtogi Norður Kóreu, undirrituðu í morgun varnarsamning. Þar er því heitið að ríkin tvö komi hvoru öðru til varnar ef árás er gerð á þau. Pútín kom í opinbera heimsókn til Pyongyang, höfuðborgar Norður-Kóreu í gær, þá fyrstu í tæpan aldarfjórðung, og mjög vel hefur farið á með honum og gestgjafanum. Kim lýsti yfir fullum stuðningi við innrás Pútíns í Úkraínu í morgun og Pútín segir að ríkin tvö gangist ekki við kúgun Vesturlanda, en báðir þessir leiðtogar sæta viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum af hálfu Sameinuðu þjóðanna.Pútín sagði einnig við undirritun varnarsamningsins að hann útilokaði ekki hernaðarlegt samstarf við Norður-Kóreu. Vestrænar leyniþjónustustofnanir fullyrða að Norður-Kórea selji Rússlandsher vopn sem notuð eru á vígvellinum í austurhéruðum Úkraínu. Varnarsamningur Rússlands og Norður-Kóreu vekur spurningar um þróun innrásarinnar. Túlka ber hvort samningurinn hafi í för með sér að Norður-Kórea sogist inn í stríðið í Úkraínu, þá fyrir tilstilli árása Úkraínuhers á Belgorod-hérað Rússlands eða á borgir og bæir á hernumdum svæðum í austurhluta Úkraínu.Rauður dregill Öllu var til tjaldað í Pyongyang í tilefni af heimsókn Pútíns. Kim tók á móti rússneskum kollega sínum á rauðum dregli í miðborginni áður en þeir fylgdust með móttökuathöfn á Kim Il Sung-torgi, þar sem lúðrahljómsveit hersins lék fyrir samstilltum hópdansi.Þetta er önnur opinbera heimsókn Pútíns til Norður-Kóreu og sú fyrsta í tæpan aldarfjórðung. Pútín var nýtekinn við embætti sem forseti Rússlands árið 2000 þegar hann heimsótti Kim Jong Il, þáverandi leiðtoga landsins föður Kim Jong Un.Kim Jong Un heimsótti Pútín til Vladivostok í austurhluta Rússlands í september í fyrra.