Ríkissaksóknari tekur rannsókn lögreglu á banaslysi til skoðunar
Ríkissaksóknari tekur rannsókn lögreglu á banaslysi til skoðunar...

Tveir voru í svefnskála Fiskverkunarinnar Háteigs þegar eitraðar gastegundir úr borholu HS orku bárust með vatnslögnum inn í skálann í febrúar 2017. Annar þeirra lést, hinn var fluttur á sjúkrahús en útskrifaður samdægurs. Vinnueftirlitið rannsakaði slysið og gerði mjög alvarlegar athugasemdir við aðbúnað virkjunarinnar. Ekki hafði verið brugðist við þegar sams konar atvik varð þar fjórum árum fyrr.Í niðurstöðu Vinnueftirlitsins kom fram að HS Orka brást ekki við ábendingum starfsmanns um gasmengun í neysluvatni við Reykjanesvirkjun árið 2013. Neysluvatnstengingar voru ekki ásættanlegar, öryggiskerfi ófullnægjandi og húsnæði sem mennirnir gistu í var ósamþykkt. Þrýstingsmælir var stíflaður og virkaði því ekki og ekki var búið að uppfæra hættumat í samræmi við upplýsingar frá 2013.Forstjóri HS Orku árið 2018, Ásgeir Margeirsson, viðurkenndi að mistök hefðu verið gerð, en Ásgeir var ekki starfandi hjá fyrirtækinu árið 2013.Í umfjöllun Heimildarinnar á dögunum viku var greint frá því að rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum hafi verið ófullnægjandi. Í áður óbirtri umsögn Vinnueftirlitsins kemur fram að illa hafi gengið að fá svör frá lögreglu sem rannsakaði málið á sama tíma, og að engin svör hafi borist við beiðnum þeirra um skýrslutökur af málsaðilum. Niðurstaða Vinnueftirlitsins hafi tekið lengri tíma en ella vegna þess að beðið var eftir gögnum frá lögreglunni sem bárust svo aldrei.Í umsögn Vinnueftirlitsins segir meðal annars:„Vinnueftirlitið óskaði bréflega eftir því að skýrslur yrðu teknar af málsaðilum [hjá lögreglu]. Við gerð þessarar skýrslu hafa upplýsingar frá lögreglu við spurningum Vinnueftirlitsins enn ekki borist. Slíkar upplýsingar gætu mögulega leitt til sértækari niðurstöðu og upplýsinga um fleiri meðvirkandi orsakaþætti.“Ríkissaksóknari fer með eftirlit með rannsókn sakamála. Engin tímamörk eru í lögum á því eftirliti. Embætti ríkissaksóknara segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að verið sé að skoða þessa þætti. Þá hefur Nefnd um eftirlit með lögreglu kallað eftir skýrslu Vinnueftirlitsins til að meta hvort ástæða sé til að taka til skoðunar rannsókn lögreglu á slysinu.Lögreglurannsókn var hætt og engin ákæra gefin út. Ekki liggur fyrir hvenær eða hvers vegna rannsókn var hætt.