Sjaldheyrð ópera eftir Mozart
Sjaldheyrð ópera eftir Mozart...

Að nýloknu TrójustríðiMozart var 25 ára gamall þegar hann samdi óperuna „Idomeneo“ árið 1781. Textann við óperuna samdi Giovanni Battista Varesco og byggði hann á texta eftir Antoine Danchet, en Danchet hafði aftur byggt texta sinn á forngrískum goðsögnum. Óperan gerist á Krít, skömmu eftir Trójustríðið. Kóngsdóttirin Ilía frá Tróju er fangi á Krít. Hún harmar örlög sín og á í mikilli innri baráttu, því að hún er orðin ástfangin af Idamante, syni Idomeneos konungs af Krít sem átti þátt í dauða föður hennar. Hún er hins vegar viss um að Idamante elski sig ekki, heldur sé ást hans bundin kóngsdótturinni Elektru frá Argos sem dvelur þar við hirðina. Jafnvel þegar Idamante kemur og játar Ilíu ást sína trúir hún honum ekki. Til þess að sannfæra hana gefur hann öllum föngunum frá Tróju frelsi. Elektra reiðist þessu, en Idamante vill sýna mildi og fangarnir syngja gleðikór. Arbace, ráðgjafi konungs, kemur og segir Idamante þau sorgartíðindi að faðir hans sé látinn, skip hans hafi brotnað við ströndina í ofsaveðri. Þegar Elektra er orðin ein veitir hún tilfinningum sínum útrás. Hún þykist sjá að Idamante elski Ilíu en ekki sig, og henni finnst það mesta svívirða ef hertekin ambátt á að verða drottning.Afdrifaríkt heitSeinna atriði 1. þáttar gerist við ströndina. Idomeneo og menn hans bjargast úr sjávarháska, en lífgjöfin hefur verið dýru verði keypt því Idomeneo hét sjávarguðinum Neptúnusi að fórna fyrir hann lífi fyrsta mannsins sem hann hitti á ströndinni. Skelfing hans er mikil þegar fórnarlambið birtist því það er enginn annar en sonur hans, Idamante. Idamante fagnar því innilega að sjá föður sinn lifandi, en faðir hans er niðurbrotinn og flýtir sér burt. Idamante skilur ekkert í þessu og veltir því fyrir sér sorgmæddur hvernig hann hafi getað móðgað föður sinn. Í 2. þætti óperunnar segir Idomeneo Arbace allt af létta og biður hann að hjálpa sér að bjarga lífi sonar síns. Arbace segir að best sé að fela prinsinn í öðru landi og Idomeneo ákveður að láta Idamante fara með kóngsdótturinni Elektru til Argos. Seinna atriði þáttarins gerist við höfnina. Skip Elektru og Idamantes er að fara að leggja af stað, en Idamante er harmþrunginn yfir því að faðir hans skuli vilja senda hann burt. Skyndilega skellur á stormur og ægileg ófreskja rís upp úr hafinu. Krítverjar æpa og spyrja hver hafi reitt guðina til reiði svo að þeir sendi þessar hörmungar. Idomeneo játar að hann sé hinn seki. Ófreskjan ræðst á mannfjöldann og allir flýja í ofboði.Sigur miskunnseminnarÍ 3. þætti kemur Idamante til Ilíu og segist vilja hitta hana í síðasta skipti. Sér sé dauðinn vís því hann verði að berjast við ægilegt skrímsli sem herji á landið. Ilía er skelfingu lostin og getur nú ekki annað en játað Idamante ást sína. Idamante biður föður sinn að segja sér hvers vegna hann hrindi sér, syni sínum, alltaf frá sér. Idomeneo segist ekki geta útskýrt það, en það tengist reiði Neptúnusar. Æðsti prestur Neptúnusar ásakar Idomeneo fyrir að halda leyndu nafni fórnarlambsins sem Neptúnus krefst. Vegna þessa hefur ófreskjan drepið marga og blóðið flýtur eftir götunum. Haldi svo áfram mun þjóðin líða undir lok. Idomeneo gefst upp og segir að fórnarlambið sé Idamante. Öllum verður mikið um. Idamante er leiddur fram, búinn hvítu eins og fórnarlamb. Hann faðmar föður sinn og segist deyja glaður núna þegar hann viti að kuldaleg framkoma hans stafaði ekki af reiði heldur af föðurást. Ilía stekkur skyndilega fram og býðst til að deyja í stað Idamantes. Skyndilega verður jarðskjálfti og rödd talar frá himni. Röddin segir að ástin hafi sigrað, Neptúnus muni láta sakir niður falla með því skilyrði að Idomeneo segi af sér, Idamante verði konungur og Ilía drottning hans. Allir fagna nema ein, Elektra, sem rýkur burt, ævareið. Óperunni lýkur með fagnaðarsöng Krítverja.Flytjendur í Heraklesarsalnum í MünchenIdomeneo: Andrew Staples.Idamante: Magdalena Kozena.Ilía: Sabine Deveilhe.Elektra: Elsa Dreisig.Arbace/ Æðsti prestur Neptúnusar: Linard Vrielink.Rödd Neptúnusar: Tareq Nazmi.Kór og hljómsveit Bæverska útvarpsins;Simon Rattle stjórnar.