Styðja vantrauststillöguna á „öfugum forsendum“...

„Við munum styðja vantrauststillöguna, í raun á öfugum forsendum við flutningsmenn, segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, um vantrauststillögu á matvælaráðherra sem tekin verður fyrir á þingi á morgun. „Við teljum að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hefði ekki átt að gefa út hvalveiðikvóta til Hvals og hún hafi þar með glutrað tækifæri til að koma í veg fyrir veiðar á hval í sumar, enda erum við mjög hörð í okkar andstöðu við hvalveiðar á Íslandi.“Þingmenn Miðflokksins lögðu fram vantrauststillögu í gær vegna framgöngu Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra við veitingu hvalveiðileyfis á yfirstandandi tímabili. Bjarkey er gagnrýnd fyrir að draga leyfisveitinguna óhóflega sem hafi haft þau áhrif að ekki verði hægt að veiða hvali á þessu tímabili, þar sem undirbúningstími var ekki nægur.Þingflokkar Samfylkingarinnar, Flokks fólksins, Viðreisnar og Pírata hafa sagst ætla að styðja vantrauststillöguna. Þingflokkur Framsóknarflokksins ætlar að verja matvælaráðherra vantrausti en þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur ekki gefið til kynna hvort allir þingmenn flokksins ætli að kjósa gegn tillögunni.Formenn þingflokka funduðu í gær til að ákveða fyrirkomulag umræðnanna í tengslum við vantrauststillöguna, sem hefjast klukkan 11 á morgun. Einnig voru rædd mál sem verða sett í forgang áður en þingi verður slitið. Samkomulag um þinglok er ekki í höfn. Samkvæmt starfsáætlun þingsins átti þingi að ljúka á föstudaginn í síðustu viku. Líklegt er að ekki verði af því fyrr en um eða eftir helgi.