Þættirnir sem hafa sett danskt samfélag á hliðina
Þættirnir sem hafa sett danskt samfélag á hliðina...

Svartur svanur er ný dönsk heimildarþáttaröð sem hóf göngu sína á RÚV fyrr í mánuðinum. Þættirnir ollu miklu fjaðrafoki í Danmörku. Upplegg þeirra er umfangsmikil rannsókn á sláandi glæpastarfsemi í undirheimum Danmerkur og Norðurlanda.Hrafnhildur Halldórsdóttir og Kristján Freyr Halldórsson ræddu við Hallgrím Indriðason fréttamann um þættina í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.„Þetta eru þættir sem fjalla um peningaþvætti og skattundanskot,“ lýsir Hallgrímur. „Þarna er verið að sýna starfsemi og kemur til af því að það er lögfræðingur sem heitir Amira Smajic kemur til dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV 2 og er þá búin að vinna í þessum bransa í tíu ár.“Smajic hefur verið eins konar milliliður dönsku undirheimanna og stórra fyrirtækja sem vilja nýta sér starfsemi þeirra til að borga minni skatta. „Þetta snýst í einfaldri mynd um að það eru gefnir út tilhæfulausir reikningar sem fyrirtækin eiga að borga. Þar með fá glæpagengin, sem eru með illa fengið fé, í raun og veru peninga fyrir alvöru starfsemi. Þetta er síðan endurgreitt af þessum fyrirtækjum undir borðið og fyrirtækin nýta sér síðan þessa reikninga til að sýna minni hagnað er raunin er.“Danska glæpagengið Banditos kemur til að mynda mikið við sögu sem og viðskiptamógúll sem gortar sig af því að vera með alls kyns fyrirtæki á sínum snærum, kemur af stað flækjum sem gera það að verkum að erfitt er að rekja allt saman og segir svo stoltur í fyrsta þættinum: „Ég borga 0% í skatt.“Lögfræðingurinn ekki öll þar sem hún er séðÞættirnir byggjast að miklu leyti á myndbandsupptökum úr falinni myndavél sem komið var fyrir á skrifstofu Amiru Smajic. „Hún er að fá til sín saman á fund bæði viðskiptamógúl og fulltrúa Banditos glæpagengisins. Þeir eru að makka saman um hvernig best er að koma þessu þannig fyrir að Banditos fái löglegt fé og fyrirtækin sleppi við skattgreiðslur.“Hallgrímur telur víst að gerð þessara þátta muni hafa áhrif á öryggi lögfræðingsins. Hins vegar komi í ljós seinna í þáttaröðinni að hún sé ekki öll þar sem hún er séð í samskiptum sínum við blaðamennina. „Hennar upphaflegu rök fyrir því að koma fram voru að henni fannst hún vera föst í þessum heimi og vildi komast út. Hún væri bara á þeim stað að þegar hún fengi beiðnir um eitthvað þá gæti hún ekki sagt nei.“Smajic kemur úr erfiðum aðstæðum sjálf. Hún er innflytjandi frá Bosníu og hún var einungis fimm ára þegar fjölskylda hennar flúði heimalandið meðan stríðið á Balkanskaga stóð sem hæst. „Það er ýmislegt í hennar uppeldi sem gerir það að verkum að til þess að verja sig fer hún að ljúga um hvað hún hafi það gott. Hún er í raun og veru bara nánast sjúkur lygari,“ segir Hallgrímur. „Hún á ofsalega auðvelt með að ljúga að fólki og gera lygina trúverðuga. Þetta nýttist blaðamönnunum þarna en svo komu hlutir í ljós seinna sem sjónvarpsáhorfendur eiga eftir að kynnast þegar þeir horfa á þáttinn.“Teygir anga sína víðaÞættirnir hafa vakið mikil viðbrögð í Danmörku enda kemur í ljós að fjöldi fólks, meðal annars borgarfulltrúi, áttu þátt í starfseminni sem teygir anga sína víða um danskt samfélag.„Ég hef aðeins verið að kanna þetta og Mette Frederikssen, forsætisráðherra Danmerkur, fór meðal annars mikinn og talaði um að þetta væri fólk sem væri alveg sama um danskt samfélag og sína meðborgara,“ segir Hallgrímur.„Það er eitt að vera sama um líf annarra, ofbeldið og það allt, en þeim er líka sama um þjóðfélagið. Þeim er sama um Danmörku,“ sagði Mette Frederikssen.Fjöldi fólks hefur neyðst til að segja af sér vegna samskipta við Smajic í þáttaröðinni. Þar á meðal Carl Richard Christensen fasteignaeigandi og fyrrverandi borgarráðsmaður í Køge fyrir jafnaðarmenn. Nýlegar fréttir benda til þess að á pappír virðist Køge-Calle, eins og hann er kallaður, ekki eiga mikið en hans nánasta fjölskylda eigi hins vegar skráðar eignir að heildarvirði 330 milljóna danskra króna. „Hann er einn af mörgum sem hafa þurft að taka pokann sinn og segja sig frá öllum stjórnunarstörfum út af sínum hlut í þáttunum.“Eitt af því sem hefur komið í ljós er að einn úr Banditos glæpagenginu sá um förgun eitraðs jarðvegs af byggingarreitum. „Þar var svindlað líka, á þann hátt að hann fékk einhvern félaga sinn sem var umhverfisfræðingur til að falsa skýrslur, til dæmis um hvað væri mikið af eiturefnum í húsi sem verið væri að rífa.“ Eiturefni hafi til að mynda fundist á 20 stöðum í húsi en því hafi verið breytt í einn stað og þar með var hægt að farga jarðveginum á öðrum stað en annars hefði verið gert. Nú hefur komið í ljós að í bænum Herning hafi fundist asbest í jarðvegi á leikskólalóð.„Þannig að það er ansi margt þarna sem gerir það að verkum að allt er búið að fara á hliðina í Danmörku út af þessum þætti.“Rætt var við Hallgrím Indriðason um þættina Svartur svanur. Þættirnir eru fimm talsins og sýndir á miðvikudagskvöldum klukkan 22.25 á RÚV.