Þarf ekki að vera slæmt að eyða miklum tíma í símanum
Þarf ekki að vera slæmt að eyða miklum tíma í símanum...

Skjánotkun hefur aukist til muna síðustu áratugi samhliða tæknibreytingum. Mikið hefur verið fjallað um neikvæð áhrif mikillar skjánotkunar, sérstaklega á börn. Foreldrar reyna að takmarka skjátíma barna sinna auk þess sem gefin hafa verið út sérstök viðmið um hámarksskjátíma barna.Heilbrigðisyfirvöld í Danmörku hafa gengið skrefinu lengra og gáfu á dögunum út leiðbeiningar um hámarkstíma fullorðinna í snjallsímum. Samkvæmt þeim er allt yfir þremur tímum of mikið.Kjartan Ólafsson, aðjúnkt í félagsfræði og sérfræðingur hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, hefur undanfarna áratugi rannsakað netnotkun barna í Evrópu og ritað meira en 50 greinar um það efni auk þess að stunda rannsóknir sem tengjast högum og líðan ungs fólks. Hann segir að mikill skjátími geti verið vandamál en að tími sé ekki rétt mælistika.„Ég myndi aldrei ráðleggja stjórnvöldum að fara þessa leið sem Danir eru að fikta við, að setja viðmið um tíma. Þetta er leið stjórnvalda til að gefa þá hugmynd að þau séu að gera eitthvað en það byggist ekki á skýrri hugmynd um hvaða áhrifum fólk vill ná fram.“Kjartan segir erfitt að ætla að sýna fram á skýr tengsl á milli skjátíma og neikvæðra áhrifa, bæði hjá börnum og fullorðnum, en þau hafa oft verið tengd við svefntruflanir og þunglyndiseinkenni. Mestu máli skipti hvað fólk gerir í símanum frekar en hversu lengi það varir.Að einhverju leyti sé verið að halda úti hræðsluáróði gegn snjalltækjum og miklum skjátíma. Þetta sé alls ekki nýtt vandamál heldur hafi það reglulega komið upp með tæknibreytingum. Sú leið að grípa til tímamarka eigi sér rætur aftur til sjónvarpsins og þegar það kom fyrst fram.„Ef maður vitnar í gömul sannindi þá er hér gömul bandarísk rannsókn sem skoðaði áhrif sjónvarps á börn. Og lokaniðurstaðan er þá leið að enginn sæmilega upplýstur maður getur reynt að halda því fram að sjónvarp hafi góð eða slæm áhrif á börn og það er eiginlega hægt að gera það sama með stafrænu tæknina. Það er ekki hægt að sjóða þetta niður í neikvæð eða jákvæð áhrif á einfaldan hátt heldur er þetta flókið samspil og tíminn er bara sáralítið brot af því hvernig þetta virkar.“Gestir í Smáralind í Kópavogi, sem fréttastofa ræddi við í gær, voru sammála um að það væri ekki gott að vera of lengi í símanum. Þau voru ekki viss hvers vegna en töldu mikilvægt að takmarka notkunina og þá sérstaklega hjá börnum.
Hvernig sé í skjátímann minn? Í iPhone er farið í Settings og þar undir er hægt að ýta á Screen Time þar sem meðalskjátími í tækinu birtist.Í Android símum er einnig farið í Settings og þar undir er ýtt á Digital Wellbeing & parental controls þar sem hægt er að nálgast upplýsingarnar.Allur gangur var á því hvað fólk eyddi miklum tíma að meðaltali í símanum daglega. Hægt er að sjá viðtölin í spilaranum fyrir neðan.