Votlendið laðar erlenda nemendur til Hvanneyrar...
Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri tekur á móti metfjölda Erasmus-skiptinema í haust. Alþjóðafulltrúi skólans segir erlenda nemendur sækjast eftir því að upplifa íslenskt sveitalíf.23 skiptinemar á vegum Erasmus stunda nám við Landbúnaðarháskóla Íslands í haust. Christian Schultze, alþjóðafulltrúi Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, segir nemana koma úr virtum háskólum víðs vegar um Evrópu og að bæði staðnemar og skiptinemar njóti góðs af samvistunum. „Ég held þau elski að búa í sveit og upplifa íslenskt sveitalíf. Þau mæta öll með gönguskó og eru mikið í útivist.“ Íslensk menning heilli nemendurna og margir þeirra taki jafnvel upp prjónaskap. „Sumir fara heim með sína eigin lopapeysu í lok árs,“ segir Christian.Christian segir marga aðallega tengja Landbúnaðarháskólann við búvísindin sem séu vissulega stór hluti af náminu á Hvanneyri en þar kenni ýmissa annarra grasa. „Við erum í umhverfis og náttúrufræði, við erum í landslagsarkitektur, við erum í skipulagsfræði, við erum í skógfræði“ segir Christian.Því til viðbótar er skólinn með alþjóðlegar námsbrautir í endurheimtarvistfræði og heimskautafræðum og erlendir doktorsnemar koma víða að til rannsókna. „Við erum háskóli á campus sem liggur innan votlendissvæðis. Það er fyrst og fremst mjög fallegt umhverfi hér en líka mjög áhugavert til að stúdera, hvort sem það er fuglalíf, jarðvegur eða eitthvað tengt umhverfisvísindunum.“ …