Allar líkur á að vantrauststillagan verði felld
Allar líkur á að vantrauststillagan verði felld...

Allar líkur eru á að vantrauststillaga á Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra, sem tekin verður til umræðu á Alþingi í dag, verði felld. Þingfundur hefst klukkan 10:30 og er tillagan fyrsta mál á dagskrá, að loknum óundirbúnum fyrirspurnum.„Það má búast við því að tillagan verði felld. Það er auðvitað ríkisstjórn í landinu og meirihluti fyrir henni í þinginu,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði.„Það er óvanalegt að það sé borin fram vantrauststillaga á einstaka ráðherra. Það hefur þó verið að gerast í allra seinustu tíð. Yfirleitt er vantrauststillaga borin fram á ríkisstjórnina í heild sinni. Þannig að eðli málsins er þannig að ef vantrauststillagan er samþykkt þá er úti um ríkisstjórnina.“Þetta er þriðja vantrauststillagan á ráðherra í núverandi ríkisstjórn sem lögð er fram á þessu kjörtímabili. Í fyrra var lögð fram vantrauststillaga á Jón Gunnarsson, þáverandi dómsmálaráðherra. Hún var felld. Í janúar var vantrauststillaga lögð fram á Svandísi Svavarsdóttur, þáverandi matvælaráðherra. Sú var þó dregin til baka skömmu síðar. Þá var lögð fram vantrauststillaga á ríkisstjórn Bjarna Bendediktssonar í heild sinni í apríl.Stjórnin með öruggan meirihlutaÞingmenn Miðflokksins eru flutningsmenn vantrauststillögunnar og hinir flokkarnir í stjórnarandstöðunni, Samfylkingin, Píratar, Flokkur fólksins og Viðreisn hafa sagt að þeir styðji tillöguna. Þessir fimm flokkar eru samtals með 25 þingsæti. Þingmenn VG og Framsóknar ætla að verja matvælaráðherra vantrausti. Þessir tveir flokkar eru samtals með 21 þingsæti.Enn er óvíst hvort allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins kjósi gegn tillögunni. Líkur eru á að flestir 17 þingmanna Sjálstæðisflokksins kjósi gegn henni, en ef sjö eða fleiri Sjálfstæðismenn kjósa með henni verður tillagan samþykkt. Eiríkur segir að það myndi marka endalok ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar, og að það sé afar ólíklegt.Eiríkur segir líklegt að markmið vantrauststillögunnar sé fyrst og fremst að sýna fram á klofning innan stjórnarinnar. Þó sé óvíst hvaða áhrif hún kunni að hafa.„Hin hliðin á vantrausti er auðvitað traust. Og standist ráðherra vantrauststillögu getur hún gengið út og sagst vera með sérstakt traust á bakinu. Svona beiting vopns af þessum toga getur snúist í höndum þeirra sem beita,“ segir Eiríkur Bergmann.