Bílstjórinn með réttarstöðu sakbornings en mörgum spurningum ósvarað...
Nokkrir úr hópi tékkneskra ferðalanga sem lentu í alvarlegu bílslysi í Öxnadal í síðustu viku hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsi, en tveir eru enn á gjörgæslu. Bílstjórinn hefur réttarstöðu sakbornings. Umfangsmikil rannsókn er þó skammt á veg komin.Á föstudag, 14. júní, var þung umferð til Akureyrar og þá einkum úr vestri, yfir Öxnadalsheiði. Bíladagar hófust kvöldið áður með þeim þúsundum akandi gesta sem þeirri hátíð fylgja.Klukkan var að ganga fimm þegar neyðarlínan fékk tilkynningu um að rúta hefði farið út af vegi í Öxnadal, sunnan við Engimýri. Þegar fyrstu viðbragðsaðilar komu á staðinn varð fljótt ljóst að slysið væri alvarlegt.Tveir af tuttugu og tveimur farþegum höfðu kastast út úr rútunni, sem lá á hliðinni töluvert langt frá veginum. Brak var á víð og dreif um slysstaðinn og vegrið á nokkuð löngum kafla var jafnað við jörðu.Viðbragðið var gríðarstórt og á vettvangi blikkuðu ljós á tugum lögreglu- og sjúkrabíla frá Akureyri og nærsveitum. Þá voru farþegar einnig fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar, bílum björgunarsveita og bílum merktum Heilbrigðisstofnun Norðurlands.Þrír útskrifaðir af sjúkrahúsinu á AkureyriEftir því sem fréttastofa kemst næst eru tveir enn í öndunarvél á gjörgæslu og þrír í viðbót liggja inni á Landspítala. Tveir eru á sjúkrahúsinu á Akureyri en þrír hafa verið útskrifaðir.„Þarna voru eldri borgarar og með yngri fjölskyldumeðlimum svo dæmi sé tekið. Og líka yngra fólk. Þetta var bara dæmigerður ferðamannahópur sem kom hingað í þeirri von að njóta landsins og dvalarinnar, sem það gerði þangað til að þessi ósköp dundu yfir“, segir Ögmundur Skarphéðinsson, ræðismaður Tékklands á Íslandi.Hann fékk það flókna verkefni að hafa uppi á aðstandendum farþeganna, með liðsinni Rauða krossins, sendiráðs Tékka í Osló, tékkneskra Íslendinga og innlendra viðbragðsaðila.Á fyrsta sólarhringnum höfðu þau staðfestar upplýsingar um hverjir farþegarnir væru og settu sig í samband við aðstandendur þeirra fljótlega á eftir.Hann segist telja flesta sem hlutu líkamlega áverka vera ýmist stöðuga eða á batavegi. En bætir við að auðvitað geti afleiðingar svona slysa, til dæmis þær andlegu, komið í ljós þegar frá líður.Rannsaka hvern krók og kima rútunnarRannsóknarnefnd Samgönguslysa og Lögreglan á Norðurlandi eystra rannsaka hvor um sig tildrög slyssins.Eyþór Þorbergsson, varasaksóknari, segir rannsóknina umfangsmikla, ekki síst þar sem þurfi að rannsaka hvern krók og kima rútunnar. Bílstjórinn hefur réttarstöðu sakbornings, sem Eyþór segir vera viðtekna venju í svona málum. Rannsóknin beinist meðal annars að því hvort hann hafi sýnt gáleysi við aksturinn.Eftir að fréttir bárust af slysinu og því að rútan sem hefði hafnað utan vegar væri gulur Tatrabus trukkur á vegum fyrirtækisins Adventura, rifjuðu fjölmiðlar upp að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem þeir lentu í ógöngum á ferðum um Ísland.„Tatrabus, tékkneska ferðaþjónustufyrirtækið sem rekur rútuna sem sökk í Blautulónum um helgina virðist ekki aðeins hafa stundað glæfralegan akstur, heldur einnig akstur utan vega“, svona hljómaði pistill í útvarpsfréttum í ágúst 2011.Og annar svona:„Bílstjórar á vegum ferðaskrifstofunnar Adventura í Tékklandi eru þekktir fyrir háskaakstur um hálendi Íslands, þetta segir íslenskur leiðsögumaður.“Svona hljómuðu fréttir um Adventura í ágúst 2011.Eftir slysið í Öxnadal hafa aðilar úr ferðaþjónustunni lýst yfir áhyggjum af því að enn skorti eftirlit með rekstri erlendra ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi.Að því komi of margir sem tali of sjaldan saman. Þar megi nefna lögregluna, Tollinn og Vinnumálastofnun.SAF hefur gert athugasemdir við starfsemi AdventuraFramkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir ítrekaðar athugasemdir hafa verið gerðar við starfsemi Adventura til eftirlitsaðila í gegnum árin. Greinilegt sé að fyrirtækið brjóti minnst eina lagagrein, það er hversu lengi erlend hópbílafyrirtæki megi aka hérlendis. Bílarnir mega vera hér á landi í 12 mánuði og keyra í mest tíu daga á 30 daga tímabili.Adventura auglýsir í sumar 15 daga Íslandsferðir, hverja á eftir annarri.„Samtök ferðaþjónustunnar hafa um árabil kallað eftir skilvirkara eftirliti með ólöglegri starfsemi í ferðaþjónustu. Þar á meðal kannski sérstaklega gagnvar ólöglegri starfsemi á hópferðabílamarkaðnum. Þar sem að ferðaskrifstofur og hópferðafyrirtæki erlend hafa verið að koma inn með bíla sem að hafa verið að skekkja hérna samkeppnisgrundvöllinn verulega. Bæði með því að keyra í trássi við reglur um innflutning á ökutækjum og ekki síður vegna félagslegra undirboða sem hafa fylgt þessari starfsemi því miður“, sagði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF.Vöruðu við bikblæðingum á ÖxnadalsheiðiÞað duldist fáum sem fóru um Öxnadalsheiði þennan dag að klæðning á veginum var ekki eins og best er á kosið. Vegagerðin hafði varað við bikblæðingum á heiðinni og beðið ökumenn að fara með gát.Fréttamenn á vettvangi urðu ekki síður varir við blæðinguna, þegar skór og búnaður klístraðist við götuna, sem glampaði á í sólinni.G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir þau skilyrði sem þarna sköpuðust, ekki teljast óvenjuleg.„Engar blæðingar á slysstaðnum“„Það sem kemur í ljós er að það voru í raun engar blæðingar á slysstaðnum, í Öxnadal, þegar slysið varð eða á undan því. Heldur voru bara þessar blæðingar sem við vorum að vara við uppi á Öxnadalsheiðinni. Síðan urðu smávegis blæðingar eftir bílaröðina þegar vettvangi var lokað og þess vegna sönduðum við og vöruðum við því. Líka vegna þess að við áttum von á sólskini daginn eftir og það væri þá hætta á að það yrðu áfram blæðingar.“Rannsóknirnar tvær eiga eftir að leiða í ljós hvort ástand vegarins, aksturslag bílstjórans eða aðrir þættir ollu slysinu, en eftir því verður líklega talsverð bið. …