„Ég er alveg á móti því að fólk segi að sjónvarp sé eitthvað óhollt“
„Ég er alveg á móti því að fólk segi að sjónvarp sé eitthvað óhollt“...

Lilja Sigurðardóttir, glæpasagnahöfundur, leikskáld og handritshöfundur, hefur sent frá sér ellefu bækur. Hún hefur átt mikilli velgengi að fagna. Átta af bókum hennar hafa verið þýddar á erlend tungumál og um milljón eintaka verið seld í tuttugu löndum. Því fylgir að sjálfsögðu mikið kynningarstarf og það krefst ferðalaga og viðveru á glæpasagnahátíðum um allan heim. Lilja var gestur Mannlega þáttarins þar sem hún sagði frá skrifunum, uppvaxtarárunum sem voru meðal annars í Svíþjóð, Mexíkó og á Spáni, og hjónabandi sínu og Margrétar Pálu Ólafsdóttir.Vel gift konu sem er rosalega dugleg að vinnaVelgengni Lilju utan landsteinanna hófst þegar glæpasagan Gildran sem kom út árið 2015 fór á mikið flug. „Stuttu síðar hætti ég í venjulegri dagvinnu, fór að skrifa og ferðast og hef verið að gera það síðan,“ segir hún. Þá hafi komið sér vel að vera gift Margréti Pálu svo hún þurfti ekki að hafa of miklar áhyggjur af innkomunni fyrst um sinn. „Ég er rosalega vel gift konu sem er rosalega dugleg að vinna svo það hjálpaði en ég lifi ágætlega á þessu núna.“Síðustu níu ár hefur Lilja sent frá sér eina bók á ári og það hefur verið mikil vinna. „Að skrifa bókina er eiginlega minnsta málið en það er svo margt í kringum þetta sem fylgir.“Engin bók í ár en hugurinn að endurnýjastAð skrifa bókina sjálfa tekur venjulega um fjóra, fimm mánuði en svo fara fram endurskrif sem taka lengri tíma. Lilja segir þó að nokkrir mánuðir eigi að duga flestum til að klára bók. „Fagurbókmenntahöfundarnir taka sér bara lengri tíma því þeir hafa rithöfundalaun og geta dúllað sér við bók í tvö ár á meðan við glæpahöfundarnir erum með þetta árlega. Þetta er aðeins annar kúltúr,“ segir hún.Snemma á þessu ári lést faðir Lilju og hún ákvað í kjölfarið að leyfa sér að taka pásu á skrifum. Það kemur því engin bók frá henni í ár. „Mér finnst hugurinn vera að endurnýjast. Það er rosa gaman að snúa til baka í það sem maður kunni einu sinni, en ég er farin að hugsa um tvær bækur svo það kemur bók á næsta ári,“ segir hún.Myndi segja já við að reka ballettflokkLilja situr þó allra síst auðum höndum því hún hefur tekið að sér ýmis aukaverkefni. „Ég sagði bara já við öllu sem kom til mín í nokkrar vikur og er aðeins að súpa seyðið af því. En það er bara gaman. Ég er þannig að ég fæ ofboðslegan áhuga á öllu sem mér dettur í hug, er sagt og boðið,“ segir hún sposk. „Ef einhver myndi segja við mig: „langar þig að reka ballettflokk?“ Þá myndi ég alveg hugsa það. Ég er rosa nýjungagjörn og finnst almennt mjög gaman að vinna.“Kominn tími til að foreldrarnir létu sína drauma rætastÆska Lilju var ansi skrautleg eins og fram hefur komið. Hún segir að foreldrar sínir hafi verið miklir hippar, rosalega opin og mikið ævintýrafólk. Fjölskyldan, foreldrar Lilju og systkinin fjögur, bjó á Akranesi þar sem faðir hennar var skólastjóri en svo flutti fjölskyldan til Reykjavíkur og ákvað að skella sér til Mexíkó. „Við fórum með flutningaskipi til Bandaríkjanna, svo var ferðast um öll Bandaríkin, Mexíkó og niður til Suður-Ameríku.“Eftir það settust þau að í Mexíkóborg. „Það var kominn tími til að mamma og pabbi létu eitthvað af sínum draumum rætast með börnin í farteskinu,“ segir Lilja.Ekki verra að horfa á sjónvarp en að lesa bækurFaðir hennar var sagnfræðingur og mikill sérfræðingur um rómönsku Ameríku og Kristófer Kólumbus og það hafði lengi verið draumur hans að dvelja á þessum slóðum. Þar bjuggu þau um hríð og síðar í pínulitlu þorpi við Kyrrahaf þar sem fjölskyldan var berfætt og borðaði fisk.Fyrsta árið sem þau bjuggu þar var Lilja ekki í skóla. Foreldrar hennar kenndu henni og svo lærði hún mikið af sjónvarpinu. „Ég hef stundum sagt að ég sé með elstu höfundum á Íslandi sem er mótuð af sjónvarpi, ekki síður en bókum. Ég var mikill lestrarhestur sem barn en þegar við fluttum til Mexíkó voru fjörutíu stöðvar,“ rifjar hún upp. „Ég horfði á sjónvarpið og ég elska sjónvarp. Það er stundum sagt að bækurnar mínar séu blanda af nordic noir og suðuramerískum telenóvellum. Það má mikið vera til í því.“Það sé ekkert verra fyrir ímyndunaraflið og sköpunarkraftinn að horfa á sjónvarp en að lesa bækur. „Ímyndunaraflið virkar öðruvísi í texta en þegar þú sérð hann á skjánum en ég held að þetta fóðri hugann á ákveðinn hátt. Ég held að þetta hafi verið afskaplega gott fyrir mig, að horfa á sjónvarpið í ár. Mamma og pabbi voru ekkert að spá í skjátíma,“ segir Lilja. „Ég er alveg á móti því að fólk segi að sjónvarp sé eitthvað óhollt.“Faðir hennar var á þessum tíma í rannsóknarvinnu og mamma hennar fór í myndlist og lærði vefnað. Systur hennar tvær fóru einnig í myndlist en bróðir hennar var heima að horfa á sjónvarpið.Draumur að lifa á fiski og kókoshnetumÞorpið á Kyrrahafsströndinni var að miklu leyti ósnert á þessum tíma. Það var nýkomið rafmagn þar fyrir atbeina fínnar ríkrar fjölskyldu sem átti sumarbústað á svæðinu og gaf þorpinu rafmagnsstreng. Það var engin önnur en Baccardi-fjölskylduna sem átti verksmiðju sem gerir frægt romm. Lilja lék sér mikið við börnin þeirra og voru þau í raun eina hvíta fólkið í bænum. „Fyrir utan einn gamlan CIA-mann sem var í felum,“ segir hún. Dvölin hafi sannarlega verið góð. „Þarna var draumur að vera. Við lifðum á fiski og kókoshnetum.“Það voru mikil viðbrigði að snúa aftur heim. „Við systkinin upplifðum það flest ekki vel, að koma heim í kulda og þurfa að fara aftur í skó. Ég á enn erfitt með skó,“ segir hún sposk. Nokkrum árum síðar flutti fjölskyldan aftur út og þá til Spánar. „Þetta var skemmtileg æska, mikil upplifun og ævintýri. Ég hef komist í snertingu við mikið af ólíkri menningu og það er eitthvað sem maður býr að.“Það varð fljótt ljóst að Lilja er listræn eins og móðir sín. Hún fann nýlega gamlan kassa með stílabókum frá því hún var barn og skrifaði á spænsku. „Mér hefur alltaf þótt gaman að skrifa bæði