Ellefu handteknir í tengslum við mótmæli í Nýju-Kaledóníu...
Lögreglan í Nýju-Kaledóníu handtók í gær ellefu einstaklinga í tengslum við skipulag mótmæla sem leiddu til mannskæðra óeirða í síðasta mánuði. Níu létust í óeirðunum, þeirra á meðal voru tveir lögreglumenn. Meðal hinna handteknu er Christian Tein sem leiðir CCAT-hreyfinguna sem er fylgjandi sjálfstæði Nýju-Kaledóníu undan stjórn Frakka. Lögreglan segir þá hafa verið handtekna fyrir skipulagða glæpastarfsemi og eru þeir nú í gæsluvarðhaldi.Kveikjan að mótmælunum var stjórnarskrárbreyting sem veitir fólki sem hefur búið á eyjunum lengur en áratug kosningarétt. Mörgum þóttu breytingarnar grafa undan stöðu Kanak-fólksins, sem eru frumbyggjar Nýju-Kaledóníu, sem telja um fjörutíu prósent íbúa og eru flestir fylgjandi sjálfstæði eyjanna.Emmanuel Macron Frakklandsforseti heimsótti Nýju-Kaledóníu til þess að reyna að lægja öldur mótmælanna. Hann tilkynnti í síðustu viku að hann skyldi fresta stjórnarskrárbreytingunum en íbúar Nýju-Kaledóníu sem eru fylgjandi sjálfstæði vilja að þær séu alfarið dregnar til baka.Neyðarástandi var lýst yfir eftir að óeirðirnar brutust út. Einhverjum takmörkunum hefur síðan verið aflétt og alþjóðaflugvöllurinn hefur verið opnaður að nýju. Útgöngubann hefur verið stytt en er enn í gildi og liðsauki frönsku lögreglunnar er enn til staðar. …