Margir búnir með sinn skerf af að sinna fyrsta viðbragði í sjálfboðavinnu...

Sjö ferðamönnum var bjargað af Svínafellsjökli laust eftir miðnætti í fyrrinótt. Einn þeirra hafði snúið sig illa á ökkla og komst hvergi og hinir voru orðnir mjög þreyttir eftir 14 klukkustunda göngu. „Þetta var bara á færi mjög reyndra manna í gær að fara þarna, í raun ótrúlegt að þeir hafi komist þarna í gegn og ekki slasast meira,“ segir Íris Ragnarsdóttir, félagi í björgunarsveitinni Kára í Öræfum.Íris segir að gangan til ferðamannanna hafi tekið um eina og hálfa klukkustund. „Sem betur fer er sjúkraflutningamaður og sjúkrabíll á svæðinu í allt sumar. Hann keyrði upp að Hafrafelli og sá fólkið á jöklinum.“ Ekki var ráðlegt að ganga upp Hafrafell vegna hættu á grjóthruni. Því var að labba upp Svínafellsjökul, fyrir aftan Hótel Skaftafell.Þræða hnífseggjar á jöklinum„Við förum í rauninni inn í mitt sprungusvæði. Maður er ekkert að fara þarna að staðaldri nema maður þurfi að komast þarna,“ segir Íris. „Við vorum bara að þræða einhverjar hnífseggjar og hliðra okkur yfir einhverjar sprungur,“ bætir hún við.Hún segir björgunarsveitarmennina fjóra sem lögðu leið sína upp Svínafellsjökul hafa verið steinhissa á að ferðamennirnir hafi komist svipaða leið þangað upp.Björgunarsveitin fyrsta viðbragð í ÖræfumÞað er hvergi hættulaust starf að vera í björgunarsveit. Munurinn á því að vera í björgunarsveitinni í Öræfum og öðrum björgunarsveitum er sá að félagar úr Kára eru oft fyrstu viðbragðsaðilar á slysstað. Íbúar í Öræfunum eru ekki margir en hundruð þúsunda sækja vinsæla ferðamannastaði í sveitinni á hverju ári.Björgunarsveitin Kári telur um 20 virka björgunarsveitarmenn að sögn Írisar. Margir þeirra vinna við fjalla- og jöklaleiðsögn og eru því vel þjálfaðir við björgun við þær aðstæður. „Svo eru aðrir sem eru sérhæfðir og reynslumestir á landinu við að klippa bíla til að koma fólki út úr þeim,“ segir hún.Bráðum búin með sinn skerfBílslysin eru erfiðust viðfangs segir Íris. „Maður finnur það alveg meðal meðlima í björgunarsveitinni að sumir eru bara búnir svolítið með sinn skerf. Þá tekur bara næsta kynslóð við og svo verðum við bráðum búin með okkar skerf. Það er sálrænt mjög erfitt.“Íris segir að það þurfi fleira fólk í Öræfasveit sem getur tekið þátt í svona verkefnum. „Það er alveg til, fólk sem vill mennta sig í heilbrigðisgeiranum, sjúkraflutningum og svoleiðis. Svo þú sért ekki með fólk sem er að takast á við svona verkefni í sjálfboðavinnu, það er bara skakkt.“Bíða eftir að þjóðvegurinn verði færðurBílslysin eru ekki bundin við mesta ferðatímann á sumrin. Aðstæður á vegum í Öræfasveit eru oft erfiðar á veturna. Vindurinn getur einnig haft sín áhrif hvenær sem er ársins. „Við erum svolítið að bíða eftir því að þjóðvegurinn verði færður utar þannig að þessar snörpu vindhviður hafi ekki jafn mikil áhrif á umferðina,“ segir Íris.Sinna hlutverki sjúkraflutningafólks og lögregluBjörgunarsveitin var kölluð út í 63 verkefni í fyrra. Þar af voru 15 þeirra yfir sumarmánuðina júní, júlí og ágúst. Meðal þess sem félagsmenn Kára verða að sinna sem fyrstu viðbragðsaðilar eru veikindi, verkefni sem sjúkraflutningafólk eða læknar sinna öllu jöfnu annars staðar á landinu. Veikindin geta verið af ýmsum toga, til að mynda ofnæmisviðbrögð eða þyngsl í brjósti. Mörg verkefnanna snúa svo að því að manna lokunarpósta við þjóðveginn í óveðri.Íris segir Öræfinga óska eftir auknu viðbragði lögreglu „og ekki bara sjúkrabíl heldur bara heilbrigðisstarfsmanni.“ Hún segir björgunarsveitina þó búa að því að hafa einn menntaðan hjúkrunarfræðing. „En hún er líka bara sjálfboðaliði þegar hún er hérna.“Komið út fyrir sjálfboðaliðastarfAðstæður í Öræfum eru talsvert öðruvísi en fyrir björgunarsveitarfólk annars staðar á landinu. „Á höfuðborgarsvæðinu er fólk í björgunarsveitum upp á félagsskapinn og þjálfun. Og það er hægt að fara í ferðir og ýmislegt.“„Við getum í raun aldrei farið í neinar björgunarsveitarferðir hér, ef það skyldi koma útkall þurfum við á öllum tækjunum að halda og þurfum á öllum mannskapnum að halda. Við þyrftum í raun einhverja afleysingu á svæðið til þess að við gætum farið og gert eitthvað saman sem hópur,“ segir Íris og bætir við: „Að mínu mati er þetta komið svolítið út fyrir sjálfboðaliðastarf. Ég væri rosa til í að það væri bara launuð vinna að vera hérna sem björgunarmaður.“„Minni lífslíkur fyrir okkur“Eftir erfið útköll, á borð við alvarleg bílslys, er haldin svokölluð viðrun þar sem björgunarsveitarmenn geta sagt frá sinni upplifun. Íris segir haldið vel utan um fólkið. Hjúkrunarfræðingur á Kirkjubæjarklaustri og læknir á Höfn hugsi vel um þau. „Þau eru mjög meðvituð um stöðuna og vilja allt fyrir okkur gera. Þau vilja líka fá fleira menntað fólk hingað þannig að þetta sé ekki svona, af því að þetta á ekki að vera svona,“ segir hún.Staðan er þó erfið og álagið á íbúa mikið. „Það eru bara minni lífslíkur fyrir okkur sem búum hér eða fólk sem lendir í slysi í Öræfum heldur en ef þú lendir í slysi einhvers staðar annars staðar á landinu. Það er svolítið erfið staðreynd“.