
Marta Wieczorek Reykvíkingur ársins...
Reykvíkingur ársins var útnefndur í 14. sinn í Elliðaárdalnum í morgun. Tilgangurinn er að leita að fólki sem hefur verið til fyrirmyndar á einhvern hátt og þakka fyrir framlag þess.Marta Weiczorek, grunnskólakennari í Hólabrekkuskóla í Breiðholti og aðstoðarskólastjóri við Pólska skólann er Reykvíkingur ársins 2024. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, tilkynnti valið í morgun við opnun Elliðaánna.Unnið gott og mikilvægt starf í þágu farsældar barnaÍ tilkynningu Reykjavíkurborgar er Marta sögð vinna óeigingjarnt starf í þágu barna í borginni sem kennari við Hólabrekkuskóla. Hún hefur einnig unnið ötullega að því að efla móðurmálskennslu pólskra barna á Íslandi í Pólska skólanum í Reykjavík sem var stofnaður 2008. Þar er lögð áhersla á pólskukennslu samhliða því að veita mikilvægan stuðning fyrir tvítyngda nemendur á Íslandi.„Hún tengir á milli og passar upp á móðurmálskunnáttu barna og það hefur gríðarlega mikið að segja upp á tungumálafærni í framtíðinni,“ segir Þórdís Lóa, forseti borgarstjórnar, sem veitti Mörtu viðurkenninguna í morgun. „Út frá farsæld barna í borginni hefur hún unnið ótrúlega gott og mikilvægt starf.“Góð samskipti draga úr fordómum og óvildMarta er menningarsendiherra fyrir Pólland í Breiðholti. Menningarsendiherrar hafa það hlutverk að brúa bilið milli ólíkra þjóða og menningarheima í hverfinu sínu með því að efla upplýsingaflæði og bæta tengslanet innan hverfisins. Verkefnið er samstarfsverkefni Suðurmiðstöðvar og mismunandi mál-, menningar-, og/eða þjóðfélagshópa.Marta segir mikilvægt að hjálpa fólki að taka virkan þátt í því samfélagi sem það kýs að búa í. „Það er líka ánægjulegt að hitta allt það fólk sem lætur sér annt um að byggja upp í sameiningu og gera samlanda sína meðvitaða um að það að búa til lokaða menningar- og málhópa getur alið á óvild og fordómum og ýtt undir neikvæðar staðalímyndir,“ segir hún. „Miklu betri lausn er að kynnast hvert öðru og hafa gagnkvæman ávinning af því.“Heppin að fólk eins og Marta velji Reykjavík„Við fáum alltaf þónokkuð af tilnefningum og það er enginn hörgull á góðu fólki,“ segir Þórdís Lóa. „Marta er aðstoðarskólastjóri í pólska skólanum og menningarsendiherra í Breiðholtinu. Við erum gríðarlega heppin að fá fólk eins og Mörtu og að hún skyldi hafa valið Reykjavík.“Marta er að vonum ánægð með titilinn. „Útnefningin kom mér mjög á óvart,“ segir hún. „Það er virkilega ánægjulegt að fá viðurkenningu fyrir starfið sitt og þetta mun örugglega hvetja mig áfram en þetta væri ekki mögulegt án skilningsríkrar fjölskyldu og ég er mjög þakklát fyrir hennar stuðning,“ segir Marta.Rætt var við Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2. …