Samstaða einræðisríkja kalli á samtakamátt lýðræðisríkja
Samstaða einræðisríkja kalli á samtakamátt lýðræðisríkja...

Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins segir nýlega undirritaðan varnarsamning Rússlandsforseta og leiðtoga Norður-Kóreu sýna að einræðisríki standi saman í auknum mæli og hve mikil þörf sé á samtakamætti lýðræðisríkja.Vladimír Pútín og Kim Jong Un undirrituðu varnarsamning í gær í opinberri heimsókn þess fyrrnefnda í Norður-Kóreu. Í honum felst meðal annars að Rússland og Norður-Kórea komi hvort öðru til varnar ef árás er gerð á annað hvort ríkið. Margir líta á samkomulagið sem endurvakningu sáttmála ríkjanna frá árinu 1961 sem var felldur úr gildi undir lok kalda stríðsins.Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATÓ, sagði í pallborðsumræðum í Kanada í gær að Norður-Kórea hefði útvegað Rússum töluvert magn skotfæra. Auk þess hefðu bæði Kínverjar og Íranir veitt Rússum hernaðarlegan stuðning í stríðinu í Úkraínu.Stoltenberg sagði einræðisríki styðja hvert við annað meira en áður og nefndi þar sérstaklega Norður-Kóreu, Rússland, Kína og Íran. „Þegar samheldni einræðisríkja vex er enn mikilvægara að við stöndum saman sem ríki sem trúa á frelsi og lýðræði,“ sagði Stoltenberg.Nánari tengsl Rússlands og ríkja í Asíu undirstriki mikilvægi þess að NATÓ vinni með bandamönnum í álfunni og því hafi leiðtogum frá Ástralíu, Japan, Nýja-Sjálandi og Suður-Kóreu verið boðið á leiðtogafund aðildarríkja NATÓ í Washington í júlí.