Nýjasta út­spil FIFA sé fá­rán­legt: ,,Ættu að snið­ganga þetta”

Jamie Carragher, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í knattspyrnu segir áætlanir FIFA um nýja 32-liða Heimsmeistarakeppni félagsliða fáránlega, ekkert sé hugsað um knattspyrnumenn í þessu samhengi og hvetur hann evrópsk félag til þess að sniðganga keppnina.

Gianni Infantino, forseti FIFA greindi frá því á blaðamannafundi í morgun að nýtt 32-liða heimsmeistaramót félagsliða í knattspyrnu færi af stað árið 2025.

Carragher, sem vinnur nú sem knattspyrnusérfræðingur hjá SkySports er allt annað en sáttur með útspil FIFA, þetta sé enn einn fáránlega hugmyndin sem Infantino, forseti sambandsins setji fram.

,,Eins og fáránlega hugmyndin um heimsmeistaramót landsliða á tveggja ára fresti, þá er þetta enn ein frá Infantino. Leikmenn þurfa að hvílast á einhverjum tímapunkti, það er komið fram við þá eins og nautgripi,” skrifar Carragher í færslu á Twitter.

FIFA hati Meistaradeild Evrópu og vilji með þessu koma höggi á keppnina. Carragher hvetur til sniðgöngu.

,,Evrópsk knattspyrnufélög ættu að sniðganga þessa keppni.”