Aðstæður á vettvangi og áverkar vöktu strax grun um manndráp...

Grunur vaknaði um að karlmaður á fertugsaldri hefði verið myrtur um leið og viðbragðsaðilar komu í sumarbústað þar sem hann hafði dvalið með öðrum mönnum. Aðstæður í húsinu og áverkar á líki mannsins gáfu til kynna að dauða hans hefði borið að með saknæmum hætti.Lögreglan á Suðurlandi fór í morgun fram á gæsluvarðhald yfir fjórum mönnum. Þeir eru á miðjum aldri og af erlendum uppruna, landar mannsins sem fannst látinn.„Í grunninn erum við að fara fram á gæsluvarðhald fram í næstu viku en svo bíðum við og sjáum hvað dómari segir. Hann liggur undir feldi núna,“ segir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi.„Í stuttu máli þá barst lögreglu tilkynning um meðvitundarleysi í uppsveitum Árnessýslu. Það var brugðist þegar við því, þetta var á öðrum tímanum í gær. Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang í þennan sumarbústað vaknaði þegar grunur um að þarna hefði eitthvað saknæmt átt sér stað, að andlát viðkomandi hefði ekki verið af eðlilegum toga. Í kjölfarið á því voru fjórir aðilar á vettvangi handteknir og vistaðir hér á Selfossi hjá lögreglu. Eftir skýrslutökur sem áttu sér stað í gærkvöldi og vinnu á vettvangi voru allir aðilarnir færðir í Héraðsdóm Suðurlands þar sem lögregla krefst gæsluvarðhalds yfir þeim. Nú bíðum við niðurstöðu úr því.“Aðkoman í sumarbústaðnum varð til þess að lögreglan hóf rannsókn á hugsanlegu manndrápi. „Aðstæður á vettvangi voru bara þannig, aðstæður og áverkar sem leiða grun að slíku. Þess vegna bregðumst við við með þessum hætti.“Jón Gunnar segist hvorki getað greint frá því hvort mennirnir eða einhver annar hafi tilkynnt um andlátið né hversu lengi þeir voru í sumarbústaðnum.Eitthvað nálægt á annan tug lögreglumanna hafa tekið þátt í rannsókninni um helgina, segir Jón Gunnar. Fyrstu klukkustundirnar skipta höfuðmáli.„Hún er algjörlega á frumstigum rannsóknin. Núna njótum við liðsinnis tæknideildar LRH við vettvangsrannsókn og slíkt. Það á bara eftir að koma í ljós þegar fram vindur hversu víðtæk hún verður.“