Lögregla enn að störfum í bústaðnum...

Lögreglumenn og tæknideild lögreglunnar vinna enn að rannsókn vettvangs í sumarbústað þar sem maður fannst látinn í gær. Grunur leikur á að manninum hafi verið ráðinn bani og fór lögregla fram á gæsluvarðhald yfir fjórum mönnum. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru allir mennirnir frá Litháen.Sumarbústaðurinn er í Kiðjabergi. Þar eru lögreglumenn á minnst þremur lögreglubílum sem vinna að rannsókn málsins. Við sumarbústaðinn eru einnig tveir sendibílar, einn rauður og annar hvítur. Ekki er vitað hvort þeir bílar eru á vegum lögreglunnar, mannanna sem voru í bústaðnum eða annarra.Þórdís Arnljótsdóttir fréttamaður og Karl Sigtryggssontökumaður urðu vitni að því síðdegis þegar lögreglukonur báru töskur inn í húsið. Síðan þá hefur ekkert orðið vart við lögreglu eða aðra við bústaðinn.Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi, sagði í samtali við fréttastofu upp úr hádegi að aðstæður á vettvangi og áverkar á líki mannsins hefðu orðið til þess að strax vaknaði grunur um að andlát mannsins hefði borið að með saknæmum hætti.