Mjög góður í að finna húmorinn í harminum...

„Í raun og veru fjallar þetta í grófum dráttum um félagskvíða sem ég upplifði eftir andlát foreldra minna í æsku,“ segir Gunnar Smári Jóhannesson, höfundur og leikari í einleiknum Félagsskapur með sjálfum mér sem sýndur er í Tjarnarbíó. Guðrún Sóley Gestsdóttir ræddi við Gunnar og Tómas Helga Baldursson leikstjóra sýningarinnar í Kastljósi.Fólk hlær og grætur eins og í lífinu„Fólk fer að hlæja, fólk grét og ég meina. Er ekki lífið þannig?“ segir Gunnar Smári um einleikinn Félagsskapur með sjálfum mér. Leikritið segir frá Unnari sem fer ekki út fyrir hússins dyr. Hann fælist fólk og þegar gestir boða komu sína fer allt á yfirsnúning. Sýningin framkallar óvænt hlátrasköll í miðjum harmi.Gunnar Smári byggir verkið á eigin reynslu þegar foreldrar hans féllu frá þegar hann var barn. „Maður vill bara vera heima hjá sjálfum sér, vera fastur í veröld sem maður er búinn að búa til úr einhverjum minningum,“ segir hann. „Þá er gott að eiga vini eins og Tómas sem dregur mann út og segir: „Nú skrifar þú leikrit. Þú finnur út úr þessum tilfinningum og setur það á svið.““Segir frá missi sínum með mikilli kómík„Ég tók strax eftir því þegar ég kynntist honum hvað hann er með einstaklega góða frásagnarhæfni,“ segir Tómas Helgi um Gunnar Smára. „Svo þegar maður kynnist honum meira koma í ljós þessi áföll sem hann hefur lent í.“„Hann missti foreldra sína ungur og missti ömmu sína og afa áður en hann varð 15 ára,“ segir Tómas um Gunnar. „Ég sagði alltaf frá því mjög kómískt. Hann er mjög góður í að finna húmorinn í harminum.“Sagan stenst tímans tönn„Ég ólst upp í þannig umhverfi að það voru allir alltaf að segja sögur,“ segir Gunnar Smári. „Ég gat ekki hætt að hlusta út af því að sagnafólkið var svo gott að segja sögur.“Á tímum samfélagsmiðla, hraða og ofgnóttar á menningarefni segir Gunnar að góðar sögur standist alltaf tímans tönn og séu samkeppnishæfar. „Eftir 1000 ár eða ef við förum 1000 ár aftur í tímann, ef manneskjan horfir í augun þín og segir sögu á sannfærandi hátt og þú ert að tengja, þá horfir þú,“ segir hann. Sagan muni allan daginn lifa af.Gunnar Smári Jóhannesson og Tómas Helgi Baldursson ræddu við Kastljós. Þáttinn má finna í spilaranum hér að ofan.