Skjálfti 5,3 að stærð í Bárðarbungu...

Jarðskjálfti af stærðinni fimm komma þrír reið yfir í Bárðarbungu klukkan 06:37 í morgun. Hann mældist í austurhluta öskjunnar. Nokkrir minni eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið. Stærstur þeirra mældist 2,5.„Það er mjög algengt að það komi stórir skjálftar í Bárðarbungu en þetta er í stærra lagi,“ sagði Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við fréttastofu í morgun. Hún segir síðasta stóra skjálfta hafa riðið yfir 18. mars og hafi mælst 4,4 að stærð.Verið sé að yfirfara gögnin frekar og frekari upplýsingar munu liggja fyrir þegar búið er að fara yfir þau með sérfræðingum í dag.