Strekkingur víðast hvar en stormur á Tröllaskaga...

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun á Norðurlandi eystra vegna suðvestan storms. Vindur getur farið yfir 35 metra á sekúndu í hviðum, einkum á Tröllaskaga. Fólk er hvatt til að ganga frá lausamunum og varasamt er að leggjast í ferðalög á þessum slóðum meðan viðvörunin er í gildi, milli ellefu fyrir hádegi og fimm síðdegis.Veðurstofan spáir suðvestan- og vestanátt, átta til fimmtán metrum á sekúndu, og léttir til, en fimmtán til 23 á norðanverðu landinu. Það dregur úr vindi í kvöld.Suðlæg eða breytileg átt, þrír til tíu metrar, á morgun og léttskýjað, en skýjað með köflum við vesturströndina. Vegurinn í Álftafirði er lokaður vegna aurskriðu. Ófært er á Dynjandisheiði og snjóþekja eða hálka á nokkrum leiðum á Vestfjörðum. Snjóflóð lokar veginum um Kjörvogshlíð í Reykjafirði og verður hann ekki opnaður fyrr en eftir helgi. Í gær var varað við asahláku og í dag flæðir vatn yfir veg á hringveginum austan við Vatnsnesveg eystra. Hálka er á Öxnadalsheiði og á Norðausturlandi eru hálkublettir á nokkrum leiðum.