Þarf að bæta bólusetningar til að verjast endurteknum mislingasmitum...

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir endurtekin mislingasmit hér á landi áhyggjuefni. Einstaklingur á miðjum aldri á Norðausturlandi greindist um helgina og grunur er um annað smit hjá einstaklingi nákomnum honum.„Viðkomandi er í einangrun í heimahúsi. Hann er ekki alvarlega veikur sem betur fer. Hann er óbólusettur og fékk einkenni um miðja viku en var greindur skjótt en svo þarf auðvitað að huga að því hverjir gætu hafa verið útsettir eða í smithættu út frá þessu.“Landlæknisembættið segir að þau sem þurfi sérstaklega að vera á varðbergi eru íbúar á Þórshöfn, sérstaklega samstarfsmenn þess veika sem munu fá upplýsingar frá sínum vinnuveitenda. Þá verður haft samband við einhverja á Akureyri.Auk þeirra sem sóttu Fjölmenningarhátíð á Vopnafirði síðasta sunnudag. „Viðburður sem viðkomandi sótti síðustu helgi og þar var fjöldi manns.“Fólk beðið um að vera í sóttkvíEkki er vitað hversu margir eru útsettir. Mislingar eru bráðsmitandi veirusýking. Guðrún segir að smitrakning sé fyrst og fremst í kringum þá sem séu óbólusettir. „Þá svona mest áríðandi nærumhverfi viðkomandi, þeir sem hafa verið í mikilli nánd.“Guðrún segir að embættið biðji alla sem klárlega hafi verið útsettir, það er að segja verið með einstaklingnum á meðan hann er smitandi að halda sig til hlés. Mislingar eru taldir vera smitandi fjóra daga fyrir útbrot og fjóra daga eftir.„Það fólk er beðið um að halda sig til hlés, í rauninni vera í sóttkví. Þetta er ansi langur tími með mislinga, einkennin koma oftast fram á 1-2 vikum en það getur tekið þrjár vikur.“Endurtekin smit áhyggjuefniRáðist verður í bólusetningar barna á svæðinu sem eru óbólusett eða komin að því að fá seinni sprautuna.Þetta er í annað sinn sem mislingar koma upp hér á landi á þessu ári. „Þeir komu til okkar núna nýlega í febrúar og nú kemur aftur smit sem er ótengt því. Við eigum von á því að þetta gerist því það er búið að vera mikið um mislinga í löndum í kringum okkur. Við þurfum að bæta bólusetningarstöðuna almennt hér til að verjast þessu,“ segir Guðrún„Mislingar eru mjög hættulegur sjúkdómur og sérstaklega fyrir ákveðna hópa, ung börn sem geta ekki verið bólusett og geta valdið mjög alvarlegum veikindum og andlátum þannig að já þetta er áhyggjuefni.“