Zelensky þakkar Bandaríkjamönnum...

Forseti Úkraínu segir að aðstoð sem samþykkt var í fulltrúadeild Bandaríkjanna í gær eigi eftir að bjarga fjölda mannslífa. Einnig var samþykktur áframhaldandi stuðningur við Ísrael. Hluti Repúblikana á Bandaríkjaþingi hafði sett sig upp á móti áframhaldandi stuðningi við Úkraínu. Í síðustu viku sótti forseti fulltrúadeildarinnar, Repúblikaninn Mike Johnson, stuðning til Demókrata til að koma málinu í gegn. Bandaríkin hafa verið dyggur bandamaður Úkraínu og samþykkti fulltrúadeildin að verja 60 milljörðum bandaríkjadala til efnahags- og hernaðaraðstoðar. Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, þakkaði fyrir í ávarpi sínu á samfélagsmiðlum í gærkvöld. Búist við að öldungadeildin veiti samþykki á þriðjudagZelensky sagði aðstoð Bandaríkjamanna bjarga mannslífum. Þá þakkaði hann þingforsetanum persónulega og öllum þeim Bandaríkjamönnum sem sem séu sama sinnis og Úkraínumenn um að illska stjórnvalda í Rússlandi eigi ekki að hafa betur. Málið fer til öldungadeildar Bandaríkjaþings á þriðjudag og er fastlega búist við að það verði samþykkt. Stuðningi við Ísrael mótmæltFulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti einnig í gær styrk upp á 17 milljarða bandaríkjadali til Ísraels. Því var mótmælt við þinghúsið. Mótmælendur saka stjórnmálamenn í Bandaríkjunum um að vera meðseka í þjóðarmorði og vísa þar til árása Ísraelshers á Gaza síðustu sex mánuði. Yfirvöld á Gaza segja Ísraelsher hafa drepið yfir 34.000 manns, þar af 13.000 börn. Þá samþykkti Bandaríkjaþing í gær einnig átta milljarða dala fjárhagsstuðning við Taívan og lagabreytingar sem gætu leitt til þess að samfélagsmiðillinn TikTok verði bannaður í Bandaríkjunum. Hann er í eigu kínverska fyrirtækisins Bytedance sem yrði gert að selja hann, samkvæmt frumvarpinu. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa lýst yfir áhyggjum af því að fyrirtækið deili upplýsingum um bandaríska notendur með kínverskum stjórnvöldum.