Átakamikið ferðalag með skörpum húmor og skopi...

Leikaranemar í Listaháskóla Íslands þurfa á síðasta námsári sínu að semja og leika sjálfstætt verk og sýna það innan skólans. Fæst fara þessi verk hátt eða ná til fleiri en þröngs hóps í skólanum og vinahóps leikarannna ungu. Eigi að síður eru þess dæmi að einstaklingsverkefni leikaranema fari á töluvert flug og vekji athygli í leikhúslífi borgarinnar. Þannig var söngleikurinn Ellý í sinni fyrstu gerð verkefni Katrínar Halldóru Sigurðardóttur, söng- og leikkonu, þegar hún var að ljúka leikaranámi frá Listaháskólanum, en eftir endurvinnslu varð þetta verk að stórri og stórvinsælli sýningu í Borgarleikhúsinu.Hluti af tilætluninni með þessu einstaklingsverkefni verðandi leikara er að þeir kynnist sjálfum sér sem best, vinni með sjálfa sig, eins og það er kallað, og sumir taka þessa hugmynd alla leið. Sú var raunin með Gunnar Smára Jóhannesson sem lauk leikaranámi vorið 2019 og vann í sínu einstaklingsverkefni með eigin sára og erfiða reynslu af því að missa á barnsaldri báða foreldra sína með stuttu millibili – og ekki löngu síðar ömmuna sem sótti Gunnar og systur hans vestur á Tálknafjörð og bjó þeim heimili á Háaleitisbrautinni í Reykjavík, þar sem hún átti heima í flottri íbúð með glæsilegu baðherbergi.Það krefst töluverðs hugrekkis að kafa ofan í reynslu af þessu tagi á opinberum vettvangi, jafnvel þótt það sé gert í öruggu umhverfi og innan um félaga sem orðnir eru manni nánir eftir nær þriggja ára samvinnu í þröngum hópi. Enn meiri kjark og dirfsku þarf til þess að leggja sjálfan sig á borðið með þessum hætti í reykvískum leikhúsheimi, sem stundum er allt annað en miskunnsamur og skilningsríkur.En þetta hefur Gunnar Smári nú gert og frumsýndi nýja gerð einstaklingsverkefnis síns í Tjarnarbíói, því sem næst fimm árum eftir að hann lék fyrri gerð verksins í Listaháskólanum.Ég sá ekki upphaflega verkið hans Gunnars Smára svo ég get ekki dæmt um eða metið hvernig þessi nýja sýning, sem hann kallar Félagsskapur með sjálfum mér, er ólík frumgerðinni. Hitt er augljóst að leikhúsumhverfi Tjarnarbíós og aðkoma annarra listamanna að verkinu hefur haft á það áhrif og Félagsskapur með sjálfum mér naut sín ágætlega á sviðinu í Tjarnarbíói í leikmynd og umgjörð sem var vel af hendi leyst. Mér finnst oft að það sem blasir við augum áhorfandans á sviðinu áður en sýningin hefst gefi nokkuð góða vísbendingu um hvernig til muni takast með sýninguna. Þessi tilgáta mín reyndist vera rétt á fimmtudagsvköldið í Tjarnarbíói. Leikmyndin og umgjörðin öll stafaði frá sér miklu öryggi. Þarna var greinilega ekki neitt af handahófi gert, allt einfalt og stílhreint og efni sýningarinnar var undirstrikað með því að þrengja leikrýmið lítið eitt með drapperingum þannig að sviðið virtist dýpra en það raunverulega er.Ljósleitt teppi þakti mikinn hluta leikrýmisins og það gaf hugmynd um að tekið yrði á erfiðu efni með léttum og ljósleitum aðferðum. Búningur Unnars, eins og karakterinn heitir í þessum einleik, var líka ljós á litinn, nema svörtu sokkarnir og dökkbláu nærbuxurnar, og þetta var allt hugsað af næmni og unnið á smekklegan hátt. Ljósa teppið afsannaði líka þá klisju að sviðsgólf í leikhúsi verði endilega að vera dökkt, helst svart á litinn, því að þetta ljósleita teppi gaf marga möguleika á ljós- og litbrigðum sem ekki hefði verið hægt að ná fram hefði gólfið verið alveg kolsvart eins og algengast er.Á miðju gólfinu var gamall svefnbekkur eins og það húsgagn var kallað hér í eina tíð, fáeinar bækur – og nánast ekkert annað. Í þessu rými og umhverfi á Unnar heima í þessari sýningu og þar hittum við hann fyrir. Unnar er ekkert hrifinn af því að vera á faraldsfæti, vill sem minnst fara út, er haldinn því sem kallað er félagsfælni, eða félagskvíði. Annað fólk fer ósköp einfaldlega í taugarnar á honum enda athugasemdir þess oft gersamlega óþolandi og út í hött. En einmitt þennan dag er friðurinn rofinn því að Dísa systir Unnars hefur boðað komu sína til hans í mat – eða kannski bara stutt innlit, eins og hún kallar það, – og í þokkabót hefur hún í hyggju að taka nýja kærastann með sér í þetta boð sem hún sjálf á frumkvæði að.Unnari líst ekkert á þessa ráðagerð – og í stað þess að hefjast handa við að taka til veitingar fyrir kvöldið fer hugur hans á mikið flug um fortíðina og marga sára reynslu sem hann á að baki.Þetta er átakamikið ferðalag en Gunnar Smári léttir ferðina með skörpum húmor og skopi og oft á tíðum glæsilegum leik. Það er ekkert áhlaupaverk að standa einn á sviði frammi fyrir áhorfendum í rúman klukkutíma og eiga að halda athygli þeirra óskertri og áhuganum vakandi allan tímann. En þetta tekst Gunnari Smára næsta vel. Það var gaman að fylgjast með því hve líkamstjáning hans var öll nákvæm og vel hugsuð og hvernig takturinn í framsögn og framvindu var brotinn upp með mismunandi hraða og áherslum. En samt er það helsti veikleiki sýningarinnar að þegar á hana leið var orðið fátt sem kom á óvart. Nema vinskapur Unnars og silfurskottunnar sem lifði af eitrunina út í öll horn og veggi. Sú sena öll var tær snilld, vel samin, sviðsett og leikin.Tómas Helgi Baldursson leikstýrir Gunnari Smára í þessu verki, en hann var líka leikstjóri óperunnar Póst-Jón, sem ég fjallaði um hér fyrir skömmu. Sviðsetning Tómasar Helga á Félagsskap með sjálfum mér fannst mér undirstrika það sem ég þóttist sjá í leikstjórn hans á Póst-Jóni í Leikhúskjallaranum, sem sagt það að þarna er á ferð leikstjóri sem hefur næmt auga fyrir því hvernig nýta má rýmið til þess að undirstrika merkingu þess sem er að gerast á sviðinu. Leikmynd og umgjörð Auðar Katrínar Víðsidóttur hef ég áður minnst á og ég endurtek að mér líkaði hennar vinna vel. Hið sama á við um lýsingu Jóhanns Friðriks Ágústssonar sem var fínlega unnin og laus við alla stæla.Trausti Ólafsson er leikstjóri og stundakennari í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað fjölda greina og bóka um leikhús og leikbókmenntir. Hann flutti pistil sinn í Víðsjá á Rás 1 sem hlýða má á í spilaranum hér að ofan.