„Ég get ekki ímyndað mér að flytja til Kína og setjast í níunda bekk“...

Grunnskólakennari segir menntakerfið ekki þjónusta börnin í landinu. Háu hlutfalli erlendra barna í skólum fylgi álag sem þó hafi aðeins bæst ofan á stöðu sem þegar var slæm.„Þessi hugmyndafræði, skóli án aðgreiningar, fúnkerar eins og skóli án afskipta,“ segir Eðvarð Hilmarsson, grunnskólakennari og stjórnmálafræðingur.Hann hefur eins og fjölmargir aðrir kennarar áhyggjur af menntakerfinu og stöðu kennara, og skrifaði á dögunum pistil þar sem hann sagði frá eigin reynslu sem kennari í grunnskóla þar sem hlutfall erlendra nemenda var komið upp í áttatíu til níutíu prósent.„Ég þurfti að upplifa það að vera að kenna börnum án þess að hafa neinar bækur sem voru að gagni, þurfti að semja allt kennsluefnið, gat ekki hjálpað nemendum sem voru með einstaklingsþarfir.“Þetta sé mjög þungur baggi.„Það er fullt af góðu fólki sem er að vinna í þessum aðstæðum. Þetta eru algjörar hetjur. Þetta fólk er að gefa af sér alla sálarorkuna og það endist ekki svona að eilífu.“Kennarar hafa enda lýst því að vera margir hverjir komnir að þolmörkum sökum álags. Flóknir nemendahópar, stórir bekkir og börn með annað móðurmál en íslensku auki álag á kennara og nýleg könnun leiddi í ljós að rúmur fjórðungur leik- og grunnskólakennara sjái ekki fyrir sér að vera í sama starfi eftir fimm ár.Hefur oft tekið við nemendum svo til beint úr flugvélinniEðvarð var farinn að upplifa að hann gæti ekki gert gagn í starfinu. Ekki væri hægt að tryggja börnunum jöfn tækifæri.Skólinn sem hann kenndi í var hverfisskóli þrátt fyrir gríðarlega hátt hlutfall erlendra nemenda.„Af hverju er þetta ekki sérskóli? Það er af því að það eru fordómar að stinga upp á því að þetta sé sérskóli. Þannig að þeir kennarar sem eru í erfiðustu aðstæðunum og eru að gera sem mest eru ekki á sömu launum og þeir sem eru í sérskólum.“Það liggi í augum uppi að skóli eigi að vera sérskóli ef þörf sé á þjónustu umfram meðaltalið.Gengur það hreinlega upp að börn sem tala ekki íslensku, sum jafnvel ekki ensku, séu öll sett saman í hefðbundinn bekk og eigi svo að læra samfélagsfræði eða náttúrufræði á íslensku?„Ef þetta er á unglingastigi og þau eiga erfitt með að segja góðan daginn, þá hafa þau ekkert erindi inn í kennslustofuna,“ segir Eðvarð.„Ég hef oft tekið við nemendum, og í fleiri skólum en einum, sem koma eiginlega bara úr flugvélinni. Það er verið að vinna í þessum málaflokki en þetta er ekki að ganga upp. Ég get ekki ímyndað mér að flytja til Kína og setjast í níunda bekk.“Bætist aðeins ofan á vanda sem var fyrirÖrt vaxandi hlutfall barna af erlendum uppruna bætist aðeins ofan á vanda sem fyrir var í skólakerfinu. Námsgögn séu óviðunandi og núgildandi aðalnámsskrá ógagnsæ, svo eitthvað sé nefnt.Eðvarð segir of mikið klifað á vöntun á sérfræðingum í skólakerfinu. Kennarar séu sérfræðingar.„Þeir þurfa ekki námskeið um fjölmenningu, þeir þurfa ekki starfsþróun, þeir þurfa ekki endalausa fundi og fyrirlestra um eitthvað sem er augljóst. Þeir þurfa bara aðstoð inn í stofuna. Þeir þurfa verkfærin sín og í einhverjum tilfellum þurfa þeir stuðning eða minni hópastærðir.“Þetta snúist í grunninn ekki um það hvaðan nemendurnir komi.„Það er til skóli sem er með næstum því hundrað prósent erlendan uppruna og það er Alþjóðaskólinn. Ég hef kíkt þar í heimsókn og fengið að sjá hvernig þau starfa, og það er æðislegur staður. Þau börn eiga mjög bjarta framtíð. Þannig að þetta er ekki uppruninn. Við erum bara með kerfi sem er ekki að þjónusta börnin okkar.“Vandinn á ábyrgð stjórnvaldaEðvarð er þeirrar skoðunar að skóli án aðgreiningar geti gengið upp, sé hann almennilega fjármagnaður.„En við lögðum niður allt stoðkerfið til þess að sýna fram á á pappír að við værum góð við alla og gætum líka sparað pening. Við höfum sparað mikinn pening en við höfum ekki verið góð við alla.“Vandi skólakerfisins sé alfarið á ábyrgð stjórnvalda.„Það er bara löngu, löngu kominn tími til að segja það að það að færa skólana yfir á sveitarfélögin og vera með stigmagnandi kröfur, það er bara algjörlega misheppnuð tilraun.“Eðvarð segir að lausnin liggi hjá kennurum. Þeir viti hvernig eigi að leysa vandann.„Það er fólkið sem á að spyrja. Ef þið ætlið að finna sérfræðing þá er það kennari.“