Kaldasti vetur á þessari öld...

Síðast þegar Íslendingar upplifðu jafn kaldan vetur var forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar liðlega hálfnuð, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var borgarstjóri og hljómsveitin Írafár var nýkomin á sviðið. Það var veturinn 1998 til 1999.Frá fyrsta vetrardegi, 28. október, til þess síðasta, í dag, var meðalhiti á landinu rétt undir frostmarki. Það er 1,2 gráðum kaldara en í meðalári síðasta áratuginn. Kaldara var norðanlands en sunnan, sem kemur kannski fáum á óvart.Veturinn var samt óvenjulegur. Þrátt fyrir mesta kulda í aldarfjórðung var lítið um óveður. Reykvíkingar sáu meira til sólar í vetur en nokkurn annan vetur síðan mælingar hófust. Reyndar átti við á Suðvesturlandi öllu að veturinn var óvenjulega þurr og sólríkur.Akureyringar fóru heldur ekki á mis við sólina, hún brosti við þeim 80 klukkustundum lengur en í meðalári, og skein á Reykvíkinga 180 klukkustundum meira en venjulega. Finnist Akureyringum sem kuldaboli hafi þó bitið óvenju fast þennan veturinn þá hafa þeir rétt fyrir sér. Þar var veturinn, líkt og á landinu öllu, sá kaldasti í aldarfjórðung.