Lá við stórslysi í Sundahöfn...

Áhöfn hafnsögubátsins Magna gerði allt hvað hún gat til að forða því að rúmlega 140 þúsund tonna, 300 metra langt skemmtiferðaskip með 4.600 manns tæki niðri á grynningum við Sundahöfn í maí í fyrra. Skipstjóri skemmtiferðaskipsins var í sinni fyrstu ferð til Reykjavíkur.Við rannsókn málsins var leið skipsins tölvuteiknuð eftir gögnum úr gagnarita skipsins. Myndbrot úr einni af öryggismyndavélum skipsins sýnir tímann frá því að skipið lagði úr höfn og þar til það var komið inn á siglingaleið og baráttu áhafnar Magna við að forða skipinu frá strandi.Fram kemur í skýrsluRannsóknarnefndar samgönguslysa sem birt var í dag að að kvöldi dags 26. maí í fyrra hugðist skemmtiferðaskipið Norwegian Prima halda úr Sundahöfn með aðstoð hafnsögubáts. Hvass vindur stóð af suðvestri. Hafnsögumaður lagði til við skipstjóra að hann íhugaði að fresta för. Skipstjóri ákvað að halda áætlun, þrátt fyrir veðrið og tilmæli hafnsögumanns. Snúa þurfti skipinu áður en því var haldið til hafs.Um það bil sem búið var að snúa skipinu gerir harðar vindhviður af vestri og á sama tíma jók skipstjórinn við hraðann. Skipið rak undan vindi í austur í átt að grynningum, en hafnsögubáturinn ýtti með öllu afli á móti.Þegar skipið og Magni komu að bauju við ytri mörk siglingaleiðarinnar varð Magni frá að hverfa um stund. Farþegaskipið rak yfir baujuna og mildi má telja að keðja sem hangir niður úr baujunni skyldi ekki flækjast í skrúfum skipsins. Að því búnu setti skipstjórinn um borð í Magna á fulla ferð og settið stefnið í hlið farþegaskipsins.Þegar þarna var komið var ljóst að Norwegian Prima, rúmlega 140 þúsund tonna skip með rúmlega 4.600 manns, var komið vel af leið og í verulega hættu á að stranda á Sundunum í Reykjavík. Skipstjórinn, sem var í sinni fyrstu ferð til Reykjavikur, reyndi að beita skrúfum skipsins til að rétt það af, en það dugði ekki til.Á myndskeiði sést hvar Magni, af öllu afli, reynir að koma skipinu aftur á rétta braut.  Fram kemur í skýrslunni að skipið hafi einungis átt um 10 metra ófarna upp á grynningar þar sem minnsta dýpt undir kjöl skipsins var innan við hálfur metri.Nokkur tilmæli eru sett fram í skýrslunni um hvernig koma má í veg fyrir að svona gerist. Mælst er til þess að útgerð skipsins meti heildstætt upplýsingar um aðstæður til að bæta áhættumat. Mælst er til þess að Faxaflóahafnir uppfæri verkferla til að tryggja góð samskipti hafnsögubáts og hafnsögumanns, þau séu á ensku og öllum skiljanleg. Því er beint til stjórnvalda að reglur um hafnsögumenn verði styrktar til að þeir geti neitað skipum um brottför við ákveðnar aðstæður. Að lokum er lagt til að gert verði áhættumat fyrir hafnir þar sem farþegaskip leggjast að bryggju.