Leigusali brunagildru dæmdur í skilorðsbundið fangelsi...

Maður sem leigði atvinnuhúsnæði með alls ófullnægjandi brunavarnir til búsetu fyrir minnst átta manns var í dag dæmdur til fjögurra mánaða skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins mat ástand hússins þannig að þar væri bráð íkveikjuhætta.Húsnæðið leigði maðurinn í gegnum einkahlutafélög sín Verktakar já Art2b og Já iðnaðarmenn verkstæði án tilskilinna leyfa og án þess að gæta að brunavörnum. Engin brunahólfun var í húsinu, ófullnægjandi flóttaleiðir, auðbrennanlegt plast í lofti og hraðbrennanlegt efni í bili milli lofts og veggja. Raflagnir voru í óásættanlegu ástandi og skapaði það eldhættu. Í ákæru sagði að maðurinn hefði í ábataskyni og á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi og heilsu minnst átta manna í augljósan háska. Það eru þeir sem hann leigði húsnæðið til búsetu.Maðurinn játaði en fór fram á vægustu refsingu sem lög leyfa. Dómarinn dæmdi hann til fjögurra mánaða skilorðsbundinnar refsingar. Þar var meðal annars tekið tillit til þess að sex ár eru liðin frá brotum hans. Rannsókn málsins dróst af ástæðum sem hann ber ekki ábyrgð á. Hins vegar er tekið fram að brot hans sé alvarlegt. Maðurinn hefur áður verið dæmdur til ellefu mánaða skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar fyrir stórfelld skattalagabrot.