Milljarðatap þrátt fyrir mettekjur...

Íslensku flugfélögin Icelandair og Play töpuðu samanlagt tæplega þrettán milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi. Þrátt fyrir að tekjur beggja flugfélaga hafi aukist milli ára er tapið á rekstrinum meira en á sama tíma í fyrra.Icelandair tapaði 9,7 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 8,7 milljarða á sama tíma í fyrra. Tap Play jókst einnig, út 2,4 milljörðum í 2,8 milljarða. Icelandair birti sína afkomutilkynningu í gær og lagði áherslu á að aldrei hefði flugfélagið haft meiri tekjur af farþegum og að einingakostnaður hefði lækkað um fimm prósent. Það var svo ekki fyrr en í fimmta áherslulið sem komið var inn á að tapið á fyrstu mánuðum ársins var meira en í fyrra.Afkoma Play á fyrsta ársfjórðungi var kynnt í dag. Þar var lögð áhersla á að tekjur flugfélagsins hefðu aukist um 66 prósent milli ára og farþegum litlu minna. Auk þess væri lausafjárstaðan traust eftir hlutafjáraukningu. Í fimmtu efnisgrein tilkynningarinnar kom svo fram að tap hefði verið á rekstrinum.Bæði flugfélögin vísa til neikvæðrar umfjöllunar um Ísland í erlendum miðlum í tengslum við eldgos og jarðhræringar á Reykjanesskaga sem ástæðu fyrir verri afkomu en ella.Í fréttatilkynningu Icelandair er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að gert sé ráð fyrir hagnaði þegar árið verður gert upp. Það yrði annað árið í röð eftir nokkur erfið ár þar sem hristi í stoðum Icelandair. Haft er eftir Einari Erni Ólafssyni, forstjóra Play, í fréttatilkynningu þess félags, að kostnaður hafi þróast í rétta átt að eldsneyti undanskildu.