Þingið í Tennessee vill leyfa kennurum að bera skotvopn...

Ríkisþing Tennessee í Bandaríkjunum hefur samþykkt lög sem heimila kennurum að bera skotvopn. Rúmt ár er liðið frá mannskæðustu skotárás í sögu ríkisins, og foreldrar barna sem lifðu þá árás af voru á meðal þeirra sem mótmæltu lögunum.Þann 27. mars í fyrra voru þrjú níu ára börn og þrír starfsmenn grunnskóla í Nashville í Tennessee skotin til bana. Foreldrar barna í skólanum voru á meðal þeirra sem mættu til að mótmæla í ríkisþinginu í gær.Skotárásir eru algengar í Bandaríkjunum, það sem af er þessu ári hafa að minnsta kosti 83 fjöldaskotárásir verið framdar. Það eru árásir þar sem fjögur eða fleiri særast eða deyja.Miklar og heitar umræður hafa verið um skotvopnalöggjöf í Tennessee síðasta árið og niðurstaðan er sú að meirihluti þingmanna á ríkisþinginu telur það auka öryggi að heimila kennurum og öðru starfsfólki skóla að bera skotvopn.Repúblikanar hafa meirihluta í þinginu og allir 68 sem greiddu atkvæði með frumvarpinu voru þingmenn flokksins. 28 voru á móti, nokkrir þingmenn Repúblikana og allir þingmenn Demókrata.Næst fer frumvarpið til ríkisstjórans Bill Lee til samþykkis. Ef það verður að lögum getur þó ekki hvaða skólastarfsmaður sem er mætt vopnaður til vinnu. Stjórnendur þurfa að samþykkja ráðstöfunina og viðkomandi þarf að sitja námskeið.