Valgarð efstur þegar liðið náði markmiðinu - „Stigum upp fyrir hvorn annan“...

Þeir Atli Snær Valgeirsson, Ágúst Ingi Davíðsson, Dagur Kári Ólafsson, Martin Bjarni Guðmundsson og Valgarð Reinhardsson skipa liðið sem tók þátt í fyrsta hluta undankeppninnar í morgun en tveir hlutar til viðbótar fara fram í dag og á því eftir að koma í ljós hvar liðið endar nákvæmlega í stigatöflunni.Valgarð Reinhardsson náði bestum árangri íslensku keppendanna. Hann er þegar þetta er skrifað í 19. sæti með 78,297 stig fyrir æfingar sínar á áhöldunum sex. Stöðutöflu má nálgast hér.„Falllaust mót, það er eiginlega það sem stóð upp úr. Ég gerði allar seríurnar sem ég ætlaði mér,“ segir Valgarð og bætir við að í heildina hafi hlutirnir gengið vel. Hann er sömuleiðis ánægður með liðsheildina og stemminguna hjá strákunum í liðinu.Valgarð vonast enn eftir því að komast inn á Ólympíuleikana í París í sumar en hann var ekki langt frá því að tryggja sér sæti með frammistöðu sinni á HM í Belgíu síðasta haust. Íþrótta- og Ólympíusambandið hefur sótt um boðssæti fyrir Valgarð en það kemur ekki í ljós fyrr en líður á sumar hvort hún beri árangur. Góður árangur á Evrópumótinu gæti hins vegar haft góð áhrif.„Fram undan er bara létt hvíld og síðan sjáum við bara og bíðum með niðurstöðuna úr wild-cardinu hvort við komumst inn á ÓL í sumar eða ekki.“Samanlagt fékk íslenska liðið 231,692 stig og er sem stendur í ellefta sæti liðakeppninnar en átta efstu liðin að loknum undankeppnunum munu taka þátt í úrslitum á sunnudag. RÚV mun sýna beint frá úrslitahlutum mótsins, keppni á einstökum áhöldum á föstudag og laugardag og liðaúrslitum á sunnudag.„Við náðum okkar markmiði að fara yfir 230 stig, bæting frá því í fyrra, mjög sáttur með það,“ segir Martin Bjarni Guðmundsson sem fékk samanlagt 71,999 stig. Hann segir mikilvægt að vera með reynslubolta á borð við Valgarð með í liðinu.„Þegar annar var að detta þá var alltaf næsti tilbúinn að koma og gera enn þá betur. Alltaf gott að hafa Valla sem fer yfirleitt í gegnum æfingarnar og dettur bara ekki, það er svolítið Valli. Við vorum aðeins að gera smá mistök við hinir en eins og ég segi þá komum við bara og stigum upp fyrir hvorn annan, það var mjög gaman.“Dagur Kári Ólafsson átti frábærar bogahestsæfingar sem skiluðu honum 13,966 stigum. Hann var um tíma meðal átta efstu sem komast í úrslit á áhaldinu en er þegar þetta er skrifað kominn niður í níunda sætið. Tveir varamenn eru útnefndir á hverju áhaldi ef einhver dregur sig úr keppni.„Það gekk bara heilt yfir frekar vel. Mjög sáttur að hafa náð að klára seríuna og gera hana svona vel,“ segir Dagur Kári um frammistöðuna.Eins og fyrr segir klárast undankeppni mótsins síðar í kvöld og þá verður ljóst hvaða keppendur og lið taka þátt í úrslitum á einstökum á höldum og í liðkeppninni. RÚV sýnir beint frá mótinu föstudag, laugardag og sunnudag. Dagskrá má nálgast hér.