Engin ný leyfi til reksturs gististaða í íbúðarhúsnæði í þéttbýli
Engin ný leyfi til reksturs gististaða í íbúðarhúsnæði í þéttbýli...

Ekki er lengur hægt að gefa út leyfi til reksturs gististaða í íbúðarhúsnæði í þéttbýli samkvæmt breytingum á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sem var samþykkt í vikunni. Breytingin á ekki við þá samninga sem þegar hafa verið gerðir um heimagistingar. Þeir sem sækja um ný leyfi til þess að leigja út herbergi eða íbúðina sína geta aðeins gert það til heimagistingar, til að mynda í gegnum Airbnb. Ekki má leigja eignina lengur en í 90 daga á ári, eða þar til leigutekjur hafa náð 2 milljónum króna. Eftir að því marki er náð getur viðkomandi ekki sótt um rekstrarleyfi gististaða. Á vef Stjórnarráðsins segir að breytingarnar séu hluti af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar á framboðshlið íbúðarhúsnæðis á suðvesturhorni landsins.Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýndu í umsögn um frumvarpið að lögin yrðu ekki afturvirk, það er að þegar gerðir samningar verði áfram gildir. Þannig sé það því alls ekki til þess fallið að auka framboð á íbúðarhúsnæði eins og yfirlýst markmið þess var. Í áliti atvinnuveganefndar segir að það gæti leitt til skaðabótaskyldu af hálfu ríkisins að gera lögin afturvirk. 301 íbúð sé þegar skráð með rekstrarleyfisskylda gististarfsemi á höfuðborgarsvæðinu og ekki hægt að fullyrða að þær allar skiluðu sér á markað ef leyfin yrðu afturkölluð.